Jafnréttisþing 2025 - Aðgerðir gegn mansali í forgangi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála, setti jafnréttisþing 2025 í Hörpu í dag fyrir fullum sal og afhenti Samtökum um kvennaathvarf jafnréttisviðurkenningu.
„Samtökin hafa frá stofnun verið ómetanlegur burðarás í baráttunni gegn heimilisofbeldi á Íslandi. Brautryðjendastarf þeirra í þágu jafnréttis og mannréttinda verður seint ofmetið,“ sagði ráðherra.
Jafnréttisþingið var að þessu sinni helgað baráttunni gegn mansali og var þingið vel sótt og varpaði skýru ljósi á mikilvægi þess að Ísland taki markviss skref í baráttunni gegn kynferðislegu mansali og skipulagðri brotastarfsemi. „Ein alvarlegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis er kynferðislegt mansal sem fyrirfinnst hér á landi líkt og erlendis,“ sagði ráðherra og sagði að mansal væri fylgifiskur skipulagðrar brotastarfsemi. „Í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar legg ég ríka áherslu á aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, þar á meðal mansali og hef þegar sett af stað vinnu við tímasetta aðgerðaáætlun um þetta mikilvæga mál.
Fyrirlesarar á þinginu voru Carolina Barrio Peña, saksóknari og sérfræðingur hjá Refsivörslusamvinnustofnun ESB (Eurojust) og Janna Davidson, talskona sænskra stjórnvalda í mansalsmálum og sérfræðingur í aðgerðaþróun hjá sænsku lögreglunni.
Carolina Barrio Peña fór yfir skilgreiningar á mansali og þróun þess. Hún lagði áherslu á mikilvægi samtals og samvinnu yfirvalda þvert á landamæri í baráttunni við alþjóðleg glæpasamtök. Landamæri séu vandamál þegar kemur að dómskerfinu: Glæpasamtök séu ekki bundin innan landamæra á sama hátt og löggæslu- og dómsyfirvöld eru.
Janna Davidson lagði áherslu á að árangur í baráttunni gegn kynferðislegu mansali næðist ekki nema með vettvangsvinnu, hvort sem það er í bókstaflegum skilningi eða stafrænt, og að norræna líkanið væri lykilatriði til að komast í tengingu við þolendur, bera kennsl á manseljendur og sporna við eftirspurninni.
„Í Svíþjóð skipti það miklu máli að hækka lágmarksrefsingu upp í fangelsisdóm, því það bæði eykur forgang þessara mála og gefur lögreglunni tæki og tól sem hún þurfti til að rannsaka og tækla þessa glæpi. Þá er mikilvægt að halda uppi samfelldu forvarnarstarfi,“ sagði Janna og benti á verðlaunaða árvekniherferð í Svíþjóð sem beint var að drengjum og ungum karlmönnum.
Að erindum loknum stýrði ráðherra pallborðsumræðum með fulltrúum helstu sérfræðinga á Íslandi sem komið hafa að málefnum er snerta mansal og þolendur þess.
Ísól Björk Karlsdóttir tók við jafnréttisverðlaunum fyrir hönd Samtaka um kvennaathvarf.
Ráðherra stýrði pallborðsumræðum með fulltrúum helstu sérfræðinga á Íslandi sem komið hafa að málefnum er snerta mansal og þolendur þess.