Mælt fyrir um breytingar á leigubifreiðalögum til að auka öryggi farþega og bæta eftirlit með þjónustu
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra mælti á Alþingi í vikunni fyrir breytingum á lögum um leigubifreiðaakstur sem tóku gildi árið 2023 en fyrstu umræðu um frumvarpið lauk í gær. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar til að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri þjónustu fyrir neytendur.
Starfshópur var skipaður í vetur til að meta reynslu af setningu laga um leigubifreiðaakstur í samræmi við bráðabirgðaákvæði núgildandi laga. Hópurinn er enn að störfum og mun skila tillögum síðar á árinu.
„Það er mitt mat að síðan lögin tóku gildi hafi verulegir ágallar komið fram. Traust almennings til leigubifreiðaþjónustunnar hefur minnkað og ýmislegt færst til verri vegar. Ég taldi því nauðsynlegt að bregðast við ástandinu á leigubifreiðamarkaði strax á vorþingi í því skyni að tryggja öryggi farþega, eðlilega verðlagningu og skilvirkt eftirlit með þjónustunni,“ sagði Eyjólfur í framsöguræðu sinni.
„Leigubifreiðaakstur er ómissandi sólarhringsþjónusta fyrir almenning. Með tillögunum eru stigin skref í þá átt að tryggja betur öryggi leigubifreiðaþjónustu þar sem leigubifreiðastöðvar veita aðhald sem og stuðla að því að réttmætir viðskiptahættir séu stundaðir í greininni. Um er að ræða fyrsta áfanga í þeirri vegferð að endurheimta traust almennings til leigubifreiðaþjónustu á Íslandi,“ sagði Eyjólfur.
Helstu breytingar með frumvarpinu:
- Stöðvaskylda – Ekki verður lengur leyfilegt að reka leigubílaþjónustu án þess að tengjast leigubifreiðastöð með gildu starfsleyfi. Leigubifreiðastjórar þurfa að vera skráðir hjá viðurkenndri leigubifreiðastöð.
- Rafrænt eftirlit og varðveisla gagna – Leigubifreiðastöðvar eiga að skrá rafrænt allar ferðir leigubifreiðastjóra (rekstrarleyfishafa) á þeirra vegum, þ.m.t. upphafs- og endastöð, staðsetningu bifreiðar og akstursleið og greiðslur farþega. Stöðvarnar eiga að varðveita upplýsingarnar í minnst 60 daga og er skylt gera árlega úttekt á stafrænum kerfum til að tryggja öryggi gagna.
- Neytendavernd – Leigubifreiðastöðvar skulu bjóða upp á einfalt og gagnsætt ferli fyrir kvartanir og ábendingar, þannig að farþegar geti tilkynnt um óeðlilega hátt verð eða slæma þjónustu. Þá verður leigubílstjórum jafnframt skylt að upplýsa farþega sérstaklega um þessi réttindi sem og möguleika á að kvarta til viðeigandi stjórnvalda hverju sinni.
Frumvarpið er hugsað sem fyrsta skref í heildarendurskoðun laganna. Þörf á frekari breytingum verður metin síðar á árinu, m.a. á grunni tillagna áðurnefnds starfshóps.
- Skoða frumvarp á vef Alþingis
- Grein ráðherra um frumvarpið á Vísi (22. maí 2025)