Styrkur á 20 ára afmælisráðstefnu Afstöðu
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti í dag Afstöðu, félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, 7 milljóna króna styrk af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar í tilefni af 20 ára afmæli félagsins. Ráðherra afhenti styrkinn á afmælisráðstefnu Afstöðu sem fram fór á Reykjavík Natura í dag.
Markmið félagsins er að vinna að tækifærum fyrir fanga til ábyrgðar, endurreisnar og að búa þeim skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélagið og draga úr líkum á ítrekuðum brotum og endurkomu í fangelsi. Afstaða veitir stuðning og ráðgjöf til fanga og fyrrverandi fanga ásamt því að veita stuðning og ráðgjöf til aðstandenda fanga.
Samtökin reka Miðstöð endurhæfingar í Holtagörðum í Reykjavík þar sem boðið er upp á fræðslu, ráðgjöf og meðferðir í samstarfi við fagfólk. Afstaða er með neyðarsíma sem er opinn allan sólarhringinn ásamt því að vera með vettvangsteymi sem sinnir ráðgjöf og vitjunum í fangelsi landsins. Þá er hægt að leita eftir lögfræðiaðstoð og fjármálaaðstoð til félagsins. Sjálfboðaliðar félagsins eru fjölmargir, bæði jafningjar sem og fagfólk s.s. félagsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar.
Félagið sinnir fjölbreyttum hópi þjónustuþega, þar á meðal erlendum föngum, fötluðum, hinsegin fólki, eldra fólki, ungmennum, atvinnulausu fólki, heimilislausum og fyrrverandi dómþolum sem þurfa á sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi að halda.