Þrjú ráðuneyti styrkja Hjálparsíma Rauða krossins 1717
Heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra, undirrituðu í dag samning við Rauða krossinn á Íslandi (RKÍ) sem felur í sér 25 milljóna króna styrk til reksturs Hjálparsímans 1717. Framkvæmdastjóri RKÍ segir þetta ómetanlegt. Þannig verði unnt að halda þjónustunni opinni allan sólarhringinn og sinna sálfélagslegum stuðningi fyrir stóran hóp fólks sem þarf á slíkri hjálp að halda.
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hafði forgöngu um málið þegar ljóst var að fjármagn skorti til reksturs Hjálparsímans og við blasti að skerða þyrfti þjónustuna. Niðurstaðan varð sú að auk heilbrigðisráðuneytisins sem leggur 10 milljónir kr. til rekstursins ákvað Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, að leggja til sömu fjárhæð og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta og barnamálaráðherra, fimm milljónir króna.
Ráðherrarnir þrír eru einhuga í afstöðu sinni til þjónustu Hjálparsímans sem snertir breiðan hóp fólks á ýmsum aldri, oft í erfiðri stöðu og fullt kvíða og hugarangri Einstaklingar sem á erfiðum stundum geti þurft á einfaldan, skjótan hátt og án hindrana að sækja sér stuðning hjá fólki sem er til þess fært og í trúnaði.
Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri RKÍ segir ákvörðun ráðherranna stórkostlegar fréttir: „Með þessum stuðningi ráðuneytanna þriggja getur Rauði krossinn haldið Hjálparsímanum 1717 áfram opnum allan sólarhringinn svo öll sem á þurfa að halda geti haft samband og rætt sín hjartans mál hvenær sem þeim hentar. Reynslan sýnir okkur að sálfélagslegur stuðningur, líkt og starfsfólk og sjálfboðaliðar 1717 veita, getur skipt sköpum í lífi fólks og jafnvel bjargað lífi þess. Slík þjónusta verður einfaldlega að vera til staðar í okkar samfélagi.“
Um Hjálparsímann 1717
- Hjá Hjálparsímanum 1717, bæði í síma og í gegnum netspjall, bjóða sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins öllum þeim sem hafa samband virka hlustun, sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði – allan sólarhringinn.
- Tæplega 20 þúsund samtöl bárust 1717 árið 2024. Sjálfboðaliðar og starfsfólk er sammála um að samtölin hafi á undangengnum misserum orðið alvarlegri og fleiri þeirra taki lengri tíma en áður.
-
Í fyrra bárust 1.036 sjálfsvígssamtöl. Í 154 tilvikum var haft samband við Neyðarlínuna og óskað eftir sjúkrabíl vegna alvarleika slíkra samtala.
-
Það sem af er árinu 2025 er heildarfjöldi samtala kominn í um 8.500. Sjálfsvígssamtöl eru orðin 648 og samtöl er snúa að ofbeldi 529. Í 83 tilfellum hefur þurft að hafa samband við 112 vegna alvarleika samtala.
Tveir starfsmenn eru í fullu starfi hjá 1717 og átta í hlutastarfi. Um sjötíu sérþjálfaðir sjálfboðaliðar taka einnig vaktir, oftast um tvær í mánuði. Nauðsynlegt er að fjölga í þeim hópi