Hoppa yfir valmynd
23. maí 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 23. maí 2025

Heil og sæl.

EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og Evrópusambandið (ESB) ætla að efla samstarf sitt á sviði utanríkis- og öryggismála. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra undirritaði sameiginlega yfirlýsingu þess efnis í tengslum við fund EES-ráðsins sem fram fór í Brussel í vikunni. Þar er kveðið á um aukið pólitískt samráð, að ríkin samræmi afstöðu til alþjóðamála, efli samstarf sitt á sviði öryggis- og varnarmála og vinni saman að því að standa vörð um mannréttindi, þ.m.t. jafnrétti.

  

  

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var ein 24 utanríkisráðherra sem skrifuðu undir áskorun til ísraelskra stjórnvalda um að heimila tafarlaust aðgengi mannúðaraðstoðar inn á Gaza og gera stofnunum Sameinuðu þjóðanna og annarra hjálparsamtaka kleift að starfa á svæðinu, í samræmi við alþjóðamannúðarrétt. Undir yfirlýsinguna skrifuðu einnig utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og tveir framkvæmdastjórar þess.

  

Þorgerður Katrín fordæmdi dráp á tveimur starfsmönnum sendiráðs Ísrael í Washington D.C. og sendi samúðarkveðjur á vini og fjölskyldu hinna látnu.

Þá óskaði hún nýjum utanríkisráðherra Kanada, Anita Anand, til hamingju með embættistökuna og þakkaði forvera hennar, Melanie Joly, fyrir gott samstarf.

Áframhaldandi stuðningur við Úkraínu, fjölþáttaógnir og vaxandi áskoranir tengdar hinum svokallaða skuggaflota Rússlands voru efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins sem lauk í Vihula í Eistlandi í síðustu viku.

  

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins funduðu í vikunni með fulltrúum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Kænugærði og heimsóttu eitt af þeim Barnahúsum sem rekin eru í landinu að íslenskri fyrirmynd. Íslensk stjórnvöld veita framlög til verkefnisins og munu einnig veita stuðning í formi fræðslu og þjálfunar á vegum Barnahúss á Íslandi.

  

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins hófst í vikunni með komu flugsveitar tékkneska flughersins til Íslands. Alls munu um 80 liðsmenn taka þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Flugsveitin kemur til landsins með fimm JAS-39C Gripen orrustuþotur. Þetta er í fjórða sinn sem Tékkar annast loftýmisgæslu hér á landi.

  

Í síðustu viku hélt fjölþáttaógnasetrið í Helsinki (Hybrid CoE) tvo viðburði á Íslandi í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Annars vegar alþjóðlega ráðstefnu og skrifborðsæfingu um efnahagsþvinganir í samvinnu við m.a. Seðlabanka Íslands, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Námskeiðið sóttu tugir sérfræðinga og fræðimanna við stofnanir, ráðuneyti og háskóla þar sem farið var yfir ýmsar sviðsmyndir og birtingarmyndir efnahagsþvingana og samskipta ríkja í því samhengi. Einnig héldu sérfræðingar fjölþáttaógnasetursins námskeið í utanríkisráðuneytinu síðar í vikunni þar sem farið var yfir fjölþáttaógnir með innlendum aðilum úr stjórnsýslunni, fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum úr atvinnulífinu. Á námskeiðinu var sjónum beint að því hvernig mismunandi gerðir fjölþáttaógna geta haft áhrif og afleiðingar á viðkomandi atvinnugeira, viðskiptavini þeirra og samfélagið í heild sinni.

  

Fulltrúi utanríkisráðuneytisins sótti fund óformlegs bandalags um tveggja ríkja lausnina svonefndu í Ísrael/Palestínu, Global Coalition for the Implementation of the Two-State Solution, sem fram fór í Rabat í Marokkó í vikunni. Bandalagið var sett á laggirnar í leiðtogaviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York í fyrra en framundan er leiðtogaráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, 18. júní nk., um sama málefni og miðast vinna aðgerðabandalagsins áðurnefnda að því að búa í haginn fyrir þann viðburð. Hernaðaraðgerðir Ísraela á Gaza og þróunin á Vesturbakkanum settu svip á umræður í Rabat en vonir standa engu að síður til að þáttaskil geti orðið í New York að mánuði liðnum.

  

Á dögunum stóð breytingaherstjórn Atlantshafsbandalagsins (e. Allied Command Transformation) fyrir ráðstefnunni Strategic Foresight Analysis 2025 í Reykjavík. Mættu hátt í hundrað manns frá aðildarríkjum bandalagsins og öðrum samstarfsríkjum til að ræða hvernig þau sjá fyrir sér að öryggislandslag bandalagsins muni þróast til lengri tíma og líta út árið 2045.

  

Sendiráð og fastanefnd Íslands í Genf minnir á Evrópumeistaramót kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sviss í sumar. Þar tekur Ísland að sjálfsögðu þátt og hvatti sendiráðið landann til að æfa sig í fléttugerð.

  

Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir, sendiherrahjón í Helsinki, tóku á móti hópi nemenda í leiklist frá Listaháskóla Íslands. Þar fékk hópurinn að skoða listagalleríið í sendiráðsbústaðnum og fékk kynningu á starfsemi sendiráðsins.

  

Harald tók þátt í Lennart Meri öryggisráðstefnunni í Tallinn á dögunum. Þar var einnig Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendierindreki framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í málefnum úkraínskra barna.

  

Þá hitti Harald norræna kollega í Riga í Lettlandi og síðan Vilníus í Litáen en þeir voru samankomnir til að fagna norrænum þjóðhátíðardögum.

  

  

Sendiráðið í Kampala fékk til sín í heimsókn Önnu Rósu Róbertsdóttur grasalækni. Fyrirtæki hennar fékk í fyrra styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins til að kenna konum í Palabek-flóttamannabúðum í norðurhluta Úganda að búa til lækningavörur og smyrsl úr jurtum í nærumhverfi þeirra. Ætlunin er að þjálfa fimm hundruð konur árlega en verkefnið er til þriggja ára. Þá er stefnt að því að þjálfa valdar konur sem leiðbeinendur við að viðhalda og dreifa þekkingunni.

  

Þá tók sendiráðið í Kampala á móti Ósk Sturludóttur, sérfræðingi á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Sérstök áhersla var lögð verkefni á kyn- og frjósemiheilbrigði og réttindi (SRHR) í heimsókn hennar. Þannig fengu Ósk og fulltrúar sendiráðsins innsýn inn í verkefni í Namayingo-héraði sem Ísland styður í gegnum Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Þá kynntu þau sér einnig framgang tveggja nýrra SRHR-verkefna, annars vegar í Kalanga-héraði og hins vegar Tororo-héraði.

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, sótti í vikunni samráðsfund sérfræðinga utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna ásamt fulltrúum frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Úkraínu. Í tengslum við fundinn heimsótti hópurinn ráðgjafafyrirtækið Rasmussen Global. Þar hitti Pétur sjálfan Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Rasmussen flutti við þetta tækifæri afar áhugaverða ræðu um stöðu mála og varðandi innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.

  

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Lilongwe komu saman ásamt fulltrúum dómsmálaráðuneytis Malaví, félagasamtökum og þróunarsamvinnuaðilum á dögunum vegna skýrslu um stöðu mannréttinda (Universal Periodic Review).

  

Sigurbjörg Alma Ingólfsdóttir, þekkt í Bretlandi sem Siddy Holloway, hlaut viðurkenningu sem Norðurlandabúi ársins frá CoScan, Sambandi norrænna félaga í Bretlandi, í vikunni. Verðlaunin hlaut hún fyrir framlag sitt, sem sagnfræðimiðlari og kynnir, til miðlunar til almennings á sögu London og hinna marga duldu króka og kima borgarinnar. Siddy er m.a. stjórnandi 'Hidden London' auk þess að vera rithöfundur og þáttastjórnandi. Viðurkenningin var veitt við móttöku sem haldin var af Sturlu Sigurjónssyni, sendiherra, í sendiráði Íslands í London. Nick Archer, formaður CoScan afhenti verðlaunin.

  

Sendiráð Íslands í Vín óskaði Austurríkismönnum til hamingju með sigurinn í söngvakeppninni Eurovision sem fram fór um síðustu helgi.

  

Aðalræðisskrifstofan í Nuuk fékk á dögunum góða heimsókn frá stjórnendum Eimskipa.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, fjallaði um framlög Íslands til varnarmála og aðildina að Atlantshafsbandalaginu á netfundi á dögunum.

  

Þá fékk Hlynur höfðinglegar móttökur í Montreal, hjá Ilagiisaq, samtökum sem styðja við efnahags- og félagslega uppbyggingu samfélaga í Nunavik.

  

Norðmenn fögnuðu þjóðhátíðardegi sínum 17. maí síðastliðinn. Ráðuneytið óskaði Norðmönnum nær og fjær til hamingju og sendiráðið í Osló hélt upp á daginn með pompi og prakt.

Sendiherrahjónin í Osló, Högni Kristjánsson og Ásgerður Ingibjörg Magnúsdóttir, lögðu leið sína á tónleika unga tónlistarmannsins Benjamíns Gísla sem hélt frábæra tónleika á Becco í Osló á dögunum.

  

Þá heimsóttu sendiherrahjónin Bergen í vikunni í tilefni af opnun árlegrar menningarhátíðar, Festspillene 2025. Sóttu þau meðal annars opnunarviðburð hátíðarinnar sem venju samkvæmt var undir berum himni í miðborg Bergen, hádegisverð í boði borgarstjóra Bergen og opnunarsýningu í Grieghallen. Auk þessa heimsótti sendiherra Brann Stadion og átti samtal við Frey Alexanderson, þjálfara knattspyrnufélagsins Brann.

  

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, heimsótti á dögunum höfuðstöðvar verkfræðistofunnar Eflu í Póllandi.

  

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, ávarpaði gesti á viðburði í Eberswalde í Brandenburg. Þar fjallaði hann um Ísland og svaraði spurningum gesta.

  

Sendiráðið í Freetown vakti athygli á samstarfi þess og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) til að binda enda á fæðingarfistil í Síerra Leóne.

Einnig var vakin athygli á samstarfi sendiráðsins og UNFPA í tengslum við frjósemisheilbrigði og kynjajafnrétti í Síerra Leóne. María Erla Marelsdóttir, sendiherra á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt í loftslagsviðburði í Dublin í vikunni.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta