Hoppa yfir valmynd
23. maí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra átti tvíhliða fund með heilbrigðisráðherra Palestínu

Alma Möller heilbrigðisráðherra og Maged Awni Abu Ramadan heilbrigðisráðherra Palestínu - mynd

Alma Möller heilbrigðisráðherra átti tvíhliða fund með Maged Awni Abu Ramadan heilbrigðisráðherra Palestínu á mánudaginn en þau sóttu bæði allsherjarþing Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í Genf. Á fundinum ræddu þau stöðu heilbrigðismála í Palestínu, einkum á Gaza svæðinu og þær gríðarmiklu áskoranir sem Palestínumenn standa frammi fyrir vegna linnulausra árása Ísraelshers og þeirra takmarkana á aðgengi að mannúðaraðstoð sem Ísraelsher hefur sett.

Þá ræddu ráðherrarnir sem bæði eru læknar, um hvaða aðgerðir þarf að ráðast í án tafar en einnig uppbyggingu innviða og heilbrigðiskerfisins til framtíðar. Í máli Mageds Awni Abu Ramadan kom fram að tafarlaust og varanlegt vopnahlé væri frumskilyrði þess að unnt væri að veita lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þá þyrfti að tryggja að hreint vatn, matur, lyf og önnur hjálpargögn bærust inn á svæðið, megin áhersla Palestínumanna væri að tryggja líf og heilsu palestínskra barna.

Ástand heilbrigðismála á Gaza svæðinu er skelfilegt. Nær daglega eru gerðar árásir á sjúkrahús og heilbrigðisstarfsfólk, frá 7. október 20230 hafa verið gerðar hátt í 600 árásir á sjúkrahús eða heilsugæslur. Í þessum árásum hafa látist rúmlega 900 manns og um 1000 manns slasast. Þá hafa 300 heilbrigðisstarfsmenn og 70 sjúklingar verið teknir höndum og settir í varðhald. Á sama tíma hefur þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu aldrei verið meiri. Tala slasaðra hækkar dag frá degi og nú hafa yfir 122.000 manns verið skráðir slasaðir. Þá hafa takmarkanir á nauðsynjum á borð við hreint vatn, mat, hreinlætisvörum og lyfjum leitt til alvarlegra og flókinna heilsufarsvandamála hjá þúsundum. Frá því í október 2023 hafa yfir 7.230 sjúklingar verið fluttir frá Gasa, flestir áður en Rafah-landamærunum var lokað í maí 2024, stærstum hluta þeirra hefur verið veitt heilbrigðisþjónusta í Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Yfir 10.500 sjúklingar, þar af yfir 4.000 börn, bíða enn í örvæntingu eftir flutningi, að sögn WHO. Þrátt fyrir stórkostlegar áskoranir og skelfilegt ástand heilbrigðiskerfisins virðist hafa tekist að útrýma lömunarveiki á Gaza og greinist veiran ekki lengur í skólpsýnum þar. Í ágúst á síðasta ári greindist lömunarveiki í fyrsta sinn á Gaza í aldarfjórðung. Í kjölfarið var farið af stað með bólusetningarátak en þátttaka í því var yfir 100% í þriðja fasa. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta