Hoppa yfir valmynd
23. maí 2025 Dómsmálaráðuneytið

Hinsegin aðgerðaáætlun skilað verulegum árangri

Þrettán aðgerðum af 21 aðgerð í aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks til áranna 2022 – 2025 er lokið að því er fram kemur í uppfærðu mælaborði áætlunarinnar á vef dómsmálaráðuneytisins.

Aðgerðir innan aðgerðaáætlunarinnar hafa stuðlað að réttarbótum í málaflokknum. Sem dæmi má nefna að hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna var gerð refsiverð með breytingu á 233. gr. a í almennum hegningarlögum. Jafnframt var sett reglugerð um blóðskimanir í því skyni að undirbúa afnám banns við blóðgjöfum karla sem stunda kynlíf með öðrum körlum. Með sama hætti er stuðlað að því með reglugerðarbreytingu að kynhlutlaust salerni séu til staðar ef salernisaðstaða er kynjaskipt.

„Fyrsta aðgerðaáætlunin í málefnum hinsegin fólks hefur skilað verulegum árangri. Aðgerðir innan hennar hafa skilað sér í aukinni þekkingu, bættum réttindum og aðstæðum hinsegin fólks,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og minnir á að verið sé að ýta úr vör vinnu við nýja aðgerðaáætlun. „Enn eru áskoranirnar margar og brýnar eins og að bæta líðan hinsegin ungs fólks og aldraðra. Við látum ekki deigan síga fyrr en hinsegin fólk nýtur sambærilegra aðstæðna og aðrir í samfélaginu. Annað er ekki í boði.“
Stefnt er að því að öllum aðgerðunum verði lokið í lok yfirstandandi árs. Áætlað er að ný aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks verði lögð fram á Alþingi undir lok yfirstandandi árs.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta