Hoppa yfir valmynd
23. maí 2025 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp ráðherra á Samorkuþingi

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flytur ávarp á Samorkuþingi. - mynd

Með nýju verklagi og breyttum umboðsreglum stefnir í að Umhverfis- og orkustofnun muni afgreiða mál að jafnaði 50% hraðar en áður tíðkaðist, án þess að afsláttur sé gefinn af umhverfiskröfum og góðri málsmeðferð.

Þetta kom fram í ávarpi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á Samorkuþingi sem fram fór á Akureyri 22. og 23. maí. Hrósaði hann starfsfólki stofnunarinnar fyrir vel unnin störf.

„Stjórnvöld eru að vinna hratt niður stabbann af eldri málum sem höfðu safnast upp á síðasta kjörtímabili, og ég veit að með aukinni snjallvæðingu, aukinni samvinnu í gagnamálum og þeim lagabreytingum sem fram undan eru munum við ná enn meiri árangri,“ sagði ráðherra.

„Umhverfis- og orkustofnun fær nú víðtækar heimildir til þess að sameina afgreiðslu mismunandi leyfa. Þar erum við bæði að tala um leyfi og heimildir sem heyra undir valdsvið stofnunarinnar sjálfrar og sem falla undir valdsvið annarra stjórnvalda. Verkefni í orkunýtingarflokki rammaáætlunar verða sett í forgang hjá stofnuninni, og með áframhaldandi árangri í að auka málshraða og skilvirkni þá mun leyfisveitingaferillinn í heild skreppa saman og biðin eftir hverri nýrri framkvæmd verða styttri.“

Í ræðu sinni bauð ráðherra fulltrúum orku- og veitufyrirtækja til vinnustofu um einföldun regluverks sem haldin verður í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu þann 5. júní næstkomandi.

„Ykkur verður helst ekki hleypt inn nema þið leggið fram beinharðar tillögur að laga- eða reglugerðarbreytingum. Erum við þá að útvista löggjafarvinnunni til hagsmunaaðila? Nei, Við ætlum hins vegar að virkja ykkur, kreista fram hugmyndir og rýna þær vel, því það eruð þið sem rekið ykkur á hindranirnar og þekkið flöskuhálsana best.“

Ráðherra sagðist leggja áherslu á að ýta undir hagvöxt og ryðja burt skriffinnsku og reglubyrði.

„Undir minni verkstjórn verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hagvaxtarráðuneyti. Ráðuneyti sem ryður burt hindrunum, ryður burt óþarfa reglubyrði og skriffinnsku, ráðuneyti sem ýtir undir hagvöxt – sjálfbæran hagvöxt þar sem við klippum á fylgnina milli aukinna efnahagsumsvifa og aukinnar kolefnislosunar, en styðjum líka rækilega við þá þróun að aukinni eftirspurn eftir orku sé mætt með grænni og endurnýjanlegri orku.“

Ráðherra tekur þátt í pallborðsumræðum á Samorkuþingi.

Ávarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta