Hoppa yfir valmynd
23. maí 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr og aðgengilegur vefur fyrir aðalnámskrá

Nú nýverið leit dagsins ljós nýr og aðgengilegur vefur fyrir aðalnámskrá, www.adalnamskra.is. Vefurinn er samstarfsverkefni Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og mennta- og barnamálaráðuneytisins en þar eru í fyrstu birtar aðalnámskrár leikskóla og grunnskóla og innan tíðar bætast við fleiri aðalnámskrár.

Nýjum og endurskoðuðum hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla, ásamt yfirheitum þeirra, hefur verið komið smekklega fyrir innan hvers greinasviðs. Endurskoðun greinasviða var unnin undir stjórn Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á árunum 2022–2024, í þéttu samtali við skólasamfélagið. Alls komu að þeirri vinnu um 40 kennarar og skólafólk víðs vegar að af landinu.

Auður Bára Ólafsdóttir, verkefnastjóri aðalnámskrár hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, er himinlifandi með nýja vefinn: „Undirbúningur og vinna við nýja vefinn síðustu tíu mánuði er svo sannarlega að skila sér. Við erum hæstánægð með afraksturinn og hlökkum til að gera stuðningsefni sem er í vinnslu fyrir aðalnámskrá grunnskóla aðgengilegt á vefnum. Vefurinn er bylting í aðgengi aðalnámskráa á Íslandi,“ segir Auður Bára.

Notagildi og stuðningur við kennara var leiðarljósið sem horft var til þegar vefurinn var hannaður. Þannig mun notendavæn uppsetning hans auðvelda aðgengi skólafólks að aðalnámskrám og vonandi greiða fyrir innleiðingu nýrra hæfniviðmiða. Að auki inniheldur vefurinn mikið magn stuðningsefnis fyrir kennara sem nú verður einfalt að nálgast og nýta. Þannig má nefna sem dæmi að innan hvers greinasviðs er búið að velja það stuðningsefni sem á við hverja námsgrein. Leitin er öflug, hugtakaskýringar aðgengilegar, umgjörðin lipur og lagt upp með að auðvelt sé að rata um nýjan vef.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta