Tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu afnumið
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að afnema tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Samhliða verður skipaður starfshópur til að móta tillögur um hliðvörslu í heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Með afnámi tilvísanaskyldu verður þjónusta sérgreinalækna við börn gjaldfrjáls, óháð tilvísun. Reglugerð um afnám tilvísanakerfis fyrir börn tekur gildi 1. júlí.
Tilvísanakerfi fyrir börn tók gildi árið 2017. Var þá horft til þess hlutverks heilsugæslunnar að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu. Með þessu væri stuðlað að því að veita þjónustu á réttu þjónustustigi og jafnframt að beina erindum í rétt úrræði hjá viðeigandi sérfræðingum ef heilsugæslan gæti ekki leyst vanda viðkomandi. Tilvísanakerfið var jafnframt tengt greiðsluþátttökukerfinu. Þannig hefur gilt að barn sem fer til sérfræðing með tilvísun frá heilsugæslu greiðir ekkert fyrir þjónustuna, en án tilvísunar er greiðsluþátttaka áskilin.
Fyrir ári var tilvísanakerfi fyrir börn breytt í þeim tilgangi að einfalda það og auka skilvirkni. Meðal annars var tilvísanaskylda felld niður sem skilyrði fyrir greiðsluþátttöku hjá tilteknum sérfræðigreinum. Skiptar skoðanir hafa verið um árangur þeirra breytinga.
Nauðsynlegt að breyta gildandi fyrirkomulagi
Alma D. Möller segir ljóst að núverandi fyrirkomulag tilvísana barna hafi hvorki þjónað þeim tilgangi né skilað þeim árangri sem að var stefnt. Í dag leiði tilvísanakerfið til þess að börn efnalítilla foreldra sem þurfa tilvísun af fjárhagslegum ástæðum, bíða í mörgum tilvikum lengur eftir þjónustu en börn foreldra sem hafa fjárhagslega burði til að fara með börn sín til sérfræðinga án tilvísunar og greiða fyrir þjónustuna.
„Það þarf að ákveða hvernig megi haga hliðvörslu í heilbrigðiskerfinu á skynsamlegan, faglegan og skilvirkan hátt. Því hef ég ákveðið að stofna starfshóp um það málefni sem mikilvægt er að vinni hratt og vel og geti skilað tillögum fyrir lok þessa árs. Ég hef þegar átt viðtöl við forsvarsmenn lækna, þar á meðal formann félags heimilislækna og mun halda samtalinu áfram“ segir Alma D. Möller. Hún segir einnig nauðsynlegt að skoða hvernig efla megi þjónustu heilsugæslunnar til að sinna börnum og enn fremur að bæta vegvísun í heilbrigðiskerfinu gagnvart börnum og foreldrum þeirra.
Alma leggur áherslu á að heilsugæslan getur leyst úr stærstum hluta erinda þeirra sem til hennar leita. Hún hvetur því foreldra til að nýta áfram góða þjónustu heilsugæslunnar fyrir börn sín.
OECD hefur bent á í flestum ríkjum þar sem greiðsluþátttaka ríkisins í heilbrigðisþjónustu er mikil helst það í hendur við sterka hliðvörslu. Slíkt sé ekki raunin hér á landi, þar sem sjúklingar hafi greiðan aðgang að sérgreinalæknum án eiginlegrar hliðvörslu. Markmið raunverulegrar hliðvörslu er að fara vel með almannafé og sérhæfða krafta starfsfólks, þ.e. að ekki sé sótt milliliðalaust þjónusta sérfræðinga vegna einfaldari heilsufarsvandamála sem hægt er að leysa á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar, eins og í heilsugæslunni.
Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna: „Við fögnum innilega þessari ákvörðun ráðherra og því að hlustað hafi verið á óskir heimilislækna um að auka skilvirkni í heilbrigðiskerfinu og bæta þjónustu heilsugæslunnar með því að draga úr óþarfa pappírslálagi. Við hlökkum til frekara samstarfs“.