Auglýst eftir styrkumsóknum í sjóðinn Þjóðhátíðargjöf Norðmanna
Stjórn Þjóðhátíðargjafar Norðmanna auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum fyrir árið 2025.
Í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 gaf norska Stórþingið Íslendingum peningagjöf. Gjöf þessi myndar stofnfé sjóðsins Þjóðhátíðargjöf Norðmanna. Styrkir voru fyrst veittir úr sjóðnum árið 1976. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 279/1975, ásamt síðari breytingum.
Tilgangur sjóðsins er að auðvelda Íslendingum að ferðast til noregs. Í þessu skyni skal veita viðurkenndum félögum, samtökum, skipulögðum hópum og einstaklingum ferðastyrki til Noregs til að efla samskipti þjóðanna t.d. með þátttöku í mótum, ráðstefnum, eða kynnisferðum, sem efnt er til á tvíhliða grundvelli. Segir enn fremur að lögð sé áhersla á að veita styrki sem renna til beins ferðakostnaðar.
Á þessu ári verður 3 m.kr. úthlutað úr sjóðnum. Umsóknir skulu berast rafrænt á umsóknareyðublaði sem nálgast má á https://minarsidur.mnh.is
Umsóknarfrestur er til og með 29. ágúst 2025.
Stefnt er á að niðurstöður um styrkveitingar liggi fyrir eigi síðar en 25. september 2025.