Ný lög: Lengra fæðingarorlof fyrir fjölburaforeldra og vegna veikinda á meðgöngu
Alþingi samþykkti í dag frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem felur í sér að fæðingarorlof lengist verulega fyrir foreldra með fjölbura og vegna veikinda á meðgöngu.
Foreldrar eiga samkvæmt lögunum sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn sem fæðist umfram eitt. Eignist fólk tvíbura lengist orlofið um hálft ár og um tólf mánuði í tilfelli þríbura. Með breytingunum tvöfaldast því það tímabil þar sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt vegna fjölbura og er foreldrum frjálst að ráðstafa mánuðunum að vild.
„Það fylgir því aukið álag að eignast tvö börn í stað eins, enda verkefnin tvöfalt fleiri en venjulega á meðan hendurnar til að vinna þau verk eru jafn margar,“ sagði Inga Sæland þegar hún mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi.
Lögin ná einnig til foreldra sem frumættleiða eða taka fleiri börn en eitt í varanlegt fóstur á sama tíma. Þeir foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
Tekið utan um fólk í krefjandi aðstæðum
Samkvæmt lögunum verður einnig heimilt að lengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði ef upp hafa komið alvarleg veikindi tengt meðgöngu sem haldið hafa áfram eftir fæðingu og gert foreldri ófært að annast barn sitt í fæðingarorlofinu. Þetta eru nýmæli.
„Með báðum þessum breytingum viljum við taka utan um fólk í aðstæðum sem geta verið afar krefjandi. Þetta eru umbætur sem geta skipt afskaplega miklu máli fyrir þau börn og fjölskyldur sem um ræðir. Þær sýna að við í ríkisstjórninni meinum það þegar við segjum að við ætlum að láta verkin tala, stoppa í götin og bæta hag fólks,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Lögin taka gildi á morgun, þann 1. júlí.
Jákvæðar breytingar fyrir foreldra sem unnið hafa erlendis
Alþingi samþykkti einnig í dag lög sem er ætlað að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í tengslum við innleiðingu á reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa.
Lögin fela í sér jákvæðar breytingar fyrir þann hóp fólks sem verið hefur á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en flytur til Íslands á meðgöngu barns og byrjar að vinna hér á landi.