Ríkisreikningur 2024: Sterk staða hagkerfisins og merki um batnandi afkomu
Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2024 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Árið 2024 mótaðist af ytri áföllum og tímabundnum sveiflum en staða hagkerfisins undir niðri reyndist sterk. Þrátt fyrir eldgos á Reykjanesi, loðnubrest og fréttaflutning um Ísland á erlendum vettvangi sem fækkaði ferðamönnum tímabundið, stóðu lykilstoðir atvinnulífsins af sér þessar áskoranir. Ferðaþjónustan náði sér hratt á strik og árangurinn varð einn sá besti í sögu greinarinnar. Þá sýndi hagkerfið styrk sinn með því að loðnubrestur hafði ekki sambærileg þjóðhagsleg áhrif og áður.
Efnahagslegar forsendur fóru jafnframt batnandi strax á fyrstu mánuðum ársins 2025. Hagvöxtur jókst og vextir tóku að lækka. Væntingavísitölur benda til vaxandi bjartsýni heimila og útlit er fyrir kröftugan vöxt í einkaneyslu.
Staða húsnæðismarkaðar bendir til þess að jafnvægi sé að nást, með hægari fólksfjölgun og verðþróun í betri takti við verðlag almennt. Aukin íbúðafjárfesting og traust staða verktaka draga úr líkum á óróa á markaði. Mikilvægt er að halda þessari þróun áfram og tryggja áframhaldandi traust til hagstjórnar.
Aðgerðir ríkisins í ríkisfjármálum hafa einnig skilað árangri. Uppgjör við kröfuhafa ÍL-sjóðs hefur styrkt skuldastöðu ríkissjóðs til muna og dregið stórlega úr ríkisábyrgðum. Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka fór fram með góðum árangri og sýndi trú fjárfesta á íslenskt efnahagslíf. Fram undan eru frekari áskoranir, meðal annars tengdar verðbólgu og aðhaldssemi, en ríkisstjórnin er staðráðin í að standa við markmið sín um hallalaus fjárlög og lækkun skulda enda er það eitt mikilvægasta verkefni hennar.
Afkoma heildarsamstæðu ríkisins á árinu 2024 var neikvæð um 56 ma.kr. Tekjur námu 1.425 ma.kr. og rekstrargjöld 1.428 ma.kr. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 57 ma.kr. Matsbreytingar eigna voru neikvæðar um 8 ma.kr. og hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins var jákvæð um 12 ma.kr.
Efnahagsreikningurinn gefur góða heildarmynd af eignum, skuldum og eiginfjárstöðu ríkisins. Heildareignir í árslok 2024 voru 5.983 ma.kr., skuldir 5.815 ma.kr. og eigið fé 168 ma.kr.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:
Árangur í ríkisfjármálum krefst aga, forgangsröðunar og skýrrar sýnar á það hvert við ætlum okkur. Við sjáum merki um stöðugleika og batnandi afkomu ríkissjóðs, þrátt fyrir áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir.
En vegferðinni er ekki lokið. Við höfum sett okkur markmið um betri nýtingu fjármuna, traustari grunn undir opinbera þjónustu og öfluga innviðauppbyggingu sem styður við verðmætasköpun. Það er ekki nóg að halda aftur af útgjöldum því við verðum einnig að fjárfesta skynsamlega og tryggja að hver króna nýtist vel.
Með fjármálastjórn sem byggst á festu og langtímahugsun leggjum við grunn að bættum lífskjörum, minni verðbólgu, lægri vöxtum og sterkari stoðum undir velferð allra landsmanna. Ríkisreikningur ársins staðfestir að við erum á réttri leið.
Ríkisreikningur fyrir árið 2024