Nýtt samkomulag felur í sér þreföldun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ
Samkomulag sem undirritað var í dag felur í sér þreföldun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ. Reist verður nýtt hjúkrunarheimili í bænum með 66 hjúkrunarrýmum en þar eru í dag 33 rými. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar undirrituðu samkomulagið í sól og blíðu utan við hjúkrunarheimilið Hamra við Langatanga. Áætlað er að nýja heimilið verði reist sem tengibygging við Hamra.
„Það gleður mig að sjá mikilvæga uppbyggingu hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ verða að veruleika. Á landsvísu er brýn þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými og með þessum áfanga stígum við raunveruleg skref í rétta átt. Uppbygging hjúkrunarheimila er nú hafin af festu hér á landi og framtíðarsýnin er skýr,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Ég er mjög ánægð með þetta nýja samkomulag um fjölgun hjúkrunarrýma og þann samning sem við vorum að undirrita,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Viðbyggingin er staðsett á einstaklega fallegri lóð og hér vonum við að íbúar fá notið gæðaþjónustu“.
Mosfellsbær útvegar ríkinu lóðina og á næstunni verður auglýst eftir uppbyggingaraðila sem mun sjá um eignarhald og framkvæmdir gegn langtímaleigusamningi við ríkið. Miðað er við að framkvæmdir hefjist árið 2026 þannig að taka megi hjúkrunarrýmin í notkun árið 2028. Öll herbergin verða einbýli með baðherbergi.
Sterkur og litríkur líkt og ráðherra
Að lokinni undirritun samningsins nú í dag gróðursettu ráðherra og bæjarstjóri broddhlyn sem mun vaxa samhliða uppbyggingunni á framkvæmdasvæðinu við Hamra. Gróðursæll reitur verður við hjúkrunarheimilið.
Í máli bæjarstjóra koma fram að hlynurinn hefði verið valinn því hann væri litríkur, líkt og Inga Sæland, auk þess sem hann væri harðgerður og yxi hratt í rétta jarðveginum. Vísaði hún þar í ávarp ráðherra á þingi aðildarríkja um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir skemmstu.
Málefni eldra fólks á oddinn
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á málefni eldra fólks, þar á meðal fjölgun hjúkrunarrýma. Margt hefur nú áunnist á skömmum tíma:
- Samkomulag í höfn. Þann 19. mars síðastliðinn var tilkynnt að samkomulag væri í höfn milli ríkis og sveitarfélaga um ábyrgðarskiptingu á uppbyggingu hjúkrunarheimila.
- Hveragerði. Í byrjun maí tók félags- og húsnæðismálaráðherra fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili í Ási í Hveragerði.
- Reykjavík. Nokkrum dögum síðar mundaði ráðherra sleggju við Nauthólsveg en þar verður ráðist í gagngerar endurbætur á húsnæði sem breytt verður í hjúkrunarheimili.
- Akureyri. Undir lok maímánaðar var ráðherra á Akureyri vegna samkomulags um nýtt hjúkrunarheimili í Þursaholti.
- Norðurþing. Sama dag fór ráðherra á Húsavík en þar hefur kyrrstaða nú verið rofin um hjúkrunarheimili sem beðið hefur verið eftir svo árum skiptir.
- Ný lög. Þann 16. júní síðastliðinn var samkomulagið frá því í mars sem náðist milli ríkis og sveitarfélaga fest í lög.