Verðmætasköpun og velferð leiðarstef í fyrstu aðgerðaáætluninni um gervigreind
Fyrsta aðgerðaáætlun Íslands um gervigreind hefur verið gefin út. Aðgerðaáætlunin var mótuð í víðtæku samráði og samanstendur af 20 aðgerðum en fjármögnun allra aðgerða liggur þegar fyrir. Gert er ráð fyrir að áætlunin, sem er til tveggja ára, verði endurskoðuð á sex mánaða fresti, meðal annars með tilliti til tækniframfara.
„Við erum stödd í miðri gervigreindarbyltingu sem mun hafa gríðarleg áhrif á samfélag okkar til framtíðar. Ísland þarf að bregðast hratt við og nýta þá sérstöðu sem við höfum sem fámenn en tæknivædd þjóð, og þess vegna kynnum við nú fyrstu aðgerðaáætlun stjórnvalda um gervigreind. Meðal aðgerða er stofnun nýrrar miðstöðvar um gervigreind og máltækni, betri aðgangur að nauðsynlegum reikniinnviðum, greining á áhrifum gervigreindar á mismunandi hópa samfélagsins, innleiðing gervigreindarlausna sem styðja við einstaklingsmiðað nám í grunn- og framhaldsskólum og ábyrg innleiðing gervigreindar í heilbrigðisþjónustu og annarri opinberri þjónustu,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.
„Rauði þráðurinn í aðgerðaáætluninni er að þjóðin njóti góðs af hagnýtingu tækninnar; verjum dýrmæt sameiginleg gildi okkar um leið og við aukum verðmætasköpun og lífsgæði almennings. Við viljum skapa skýra umgjörð, efla nýsköpun og nýta tæknina til að bæta þjónustu, auka framleiðni og styðja við framsækið skólakerfi og stafrænt heilbrigðiskerfi. Við ætlum líka að efla þekkingu og færni fólks á vinnumarkaði, því við viljum að allir séu með,“ segir Logi.
Tuttugu aðgerðir í fimm flokkum
Í áætluninni eru markmið skilgreind með skýrum hætti, sem og væntanleg afurð og tímarammi hverrar aðgerðar. Jafnframt er tilgreint hvaða ráðuneyti ber ábyrgð á framgangi viðkomandi aðgerðar og hver sé framkvæmdaaðili. Alls bera fimm ráðuneyti ábyrgð á aðgerðum í áætluninni og þá eru mörg ráðuneyti í samstarfi um framkvæmd aðgerða.
Aðgerðirnar tuttugu eru flokkaðar eftir fimm grunnstoðum aðgerðaáætlunarinnar:
- Gervigreind í allra þágu, þar sem áhersla er á þau gildi sem hafa þarf til hliðsjónar við þróun, innleiðingu og notkun gervigreindar, auk mats á siðferðislegum og samfélagslegum álitamálum.
- Samkeppnishæft atvinnulíf, þar sem leitast er við að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með hagnýtingu gervigreindar, styrkingu stafrænnar getu og öflugu samstarfi milli háskóla og atvinnulífs.
- Menntun í takt við tímann, sem miðar að því að búa samfélagið sem best undir áframhaldandi stafræna umbreytingu og stuðla að því að öll nýting gervigreindar verði í samræmi við mannréttindi, siðferðileg gildi og fjölbreyttar þarfir samfélagsins.
- Nýjar leiðir í opinberri þjónustu, þar sem horft er til þess að hið opinbera nýti stafræna tækni til að bæta þjónustu við almenning, auka skilvirkni og hagkvæmni í umsýslu.
- Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar, þar sem áhersla er lögð á að hið opinbera nýti stafræna tækni til auka aðgengi, bæta þjónustu og draga úr álagi í heilbrigðiskerfinu.
Regluleg endurskoðun
Aðgerðaáætlunin gildir í tvö ára frá birtingu, eða til ársins 2027. Gert er ráð fyrir að hún verði endurskoðuð á sex mánaða fresti, meðal annars með tilliti til nýrra aðgerða, breyttrar tækni eða uppfærslu á áherslum eða stefnu. Þá mun heildarendurskoðun áætlunarinnar eiga sér stað eigi síðar en um mitt ár 2027. Markmiðið með reglubundinni endurskoðun er að tryggja að áætlunin sé í takt við tækniþróun, samfélagslegar þarfir og alþjóðleg viðmið.
Vegna þeirrar öru þróunar sem átt hefur sér stað á sviði gervigreindar síðustu árin er einnig tímabært að endurskoða stefnu Íslands um gervigreind, sem er frá árinu 2021. Unnið verður að endurskoðuninni samhliða framkvæmd aðgerða áætlunarinnar, þar sem niðurstöður og afrakstur ýmissa aðgerða verða nýttar til áframhaldandi stefnumótunar stjórnvalda á sviði gervigreindar.