Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2025 Atvinnuvegaráðuneytið

Sýklalyfjaónæmar bakteríur (MÓSA) greinast í fyrsta sinn við skimun í svínum hér á landi

Í skimun Matvælastofnunar við slátrun svína í síðustu viku greindust Meticillín ónæmar bakteríur (MÓSA) í skimunarsýnum. MÓSA smitast ekki með mat og því er ekki talin hætta á smiti vegna neyslu svínaafurða.

Um er að ræða búfjártengt MÓSA sem er mjög útbreidd í búfé í Evrópu og víðar en þetta er í fyrsta skipti sem MÓSA greinist í búfé á Íslandi. Ekki er um eiginlegan dýrasjúkdóm að ræða því smitið er almennt ekki talið valda veikindum í dýrum sem verða einkennalausir berar.

Fólk sem starfar í mikilli nálægð við dýrin er í aukinni áhættu að verða fyrir smiti. Líkt og hjá dýrum veldur smit í fólki sjaldnast veikindum nema ef það berst í fólk með skert ónæmiskerfi eða veldur sárasýkingum. Þá getur verið erfitt að meðhöndla slíkar sýkingar með hefðbundnum sýklalyfjum. Því er afar mikilvægt að MÓSA smit berist ekki inn á heilbrigðisstofnanir. Matvælastofnun starfar náið með Embætti landlæknis og heilbrigðisyfirvöldum þegar slíkt smit kemur upp í búfé.

Síðustu vikur hefur Matvælastofnun skimað fyrir MÓSA við slátrun svína en þær skimanir eru hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis 2025-2029. Stroksýni eru tekin úr nefholi svína frá öllum svínabúum sem slátra eldisgrísum, samtals 15 búum. Nú þegar hefur verið skimað í svínum frá 13 búum og reyndust þrenn þeirra jákvæð í skimuninni. Þekkt er að MÓSA getur smitast á milli svína við flutning í sláturhús og því ekki hægt að útiloka krossmengun á milli svínanna, en þeim var öllum slátrað á svipuðum tíma í sama sláturhúsi.

Næstu skref miða að því að sannreyna hvort MÓSA sé að finna á þeim búum sem svínin komu frá, með sýnatökum á búunum sjálfum. Í framhaldi mun Matvælastofnun á næstu vikum fara í sýnatökur á öllum svínabúum landsins til að kanna frekari útbreiðslu, ásamt því að fara í viðeigandi aðgerðir til að hindra frekari smitdreifingu í þéttu samstarfi við hagaðila.

Frétt Matvælastofnunar
Upplýsingar um MÓSA - Spurt og svarað
Upplýsingar um MÓSA frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta