Vegna umfjöllunar um kostnað af starfshópum á síðustu árum
Í ljósi fréttaflutnings af kostnaði vegna tímabundinna starfshópa og nefnda á tímabilinu 2022 til 2024 vill umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið árétta eftirfarandi.
Um er að ræða 34 starfs- og stýrihópa á þriggja ára tímabili og nam heildarkostnaður vegna starfsemi þeirra yfir 174,3 milljónum króna. Er þá horft til gjaldfærðs kostnaðar vegna þóknana nefndarmanna, aðkeyptrar sérfræðivinnu og annars kostnaðar. Ekki er þó meðtalinn launakostnaður vegna vinnustunda starfsmanna ráðuneytisins sem störfuðu með hópunum og komu í flestum tilfellum að ritun skýrslna sem hóparnir skiluðu.
Starfsemi hópanna og allur kostnaður sem féll til vegna þeirra rúmaðist innan fjárheimilda hvers árs og varðaði verkefni sem heyra undir ráðuneytið. Afurðir vinnunnar hafa í ýmsum tilvikum gagnast ráðuneytinu við að meta stöðu einstaka málaflokka og til undirbúnings stefnumótunar þeirra, en einnig við vinnslu lagafrumvarpa og reglugerðarbreytinga.
Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er nú unnið að bættri forgangsröðun útgjalda til að styðja við stefnu nýrrar ríkisstjórnar á þeim málefnasviðum sem undir ráðuneytið heyra.
Eftir yfirferð á kostnaði vegna starfshópa sem féll til á undanförnum árum hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hnykkt á því að framvegis verði kostnaði vegna slíkrar vinnu haldið í lágmarki og að meginreglan sé sú að seta starfsmanna ríkis og hagaðila í tímabundnum starfshópum sé ekki launuð sérstaklega. Þá verður mannauður ráðuneytisins nýttur í ríkara mæli við stýringu starfshópa og vinnustofur haldnar til samráðs við hagaðila. Dæmi um slíkt er vinnustofa um einföldun regluverks í orku- og veitugeiranum sem haldin var á dögunum.