Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2025 Dómsmálaráðuneytið

Aðsóknarmet og metfjöldi nýnema í lögreglunámi

Aldrei hafa fleiri umsóknir borist um nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn við Háskólann á Akureyri. Alls bárust 250 umsóknir. Inntökupróf stóðu svo yfir mest allan apríl mánuð.

Nú liggur fyrir að 96 nýnemar munu hefja nám við skólann í haust og er það metfjöldi nýnema í náminu.

„Ég vil óska öllum þeim sem hefja lögreglunám í haust hjartanlega til hamingju. Það er stór áfangi að fá að hefja slíkt nám og óska ég þeim velfarnaðar í sínu námi. Ég er ótrúlega ánægð með þennan mikla áhuga og vona að hann haldi áfram á næstu árum,“ sagði Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, af þessu tilefni.
Í janúar sl. kynnti dómsmálaráðherra áform sín um að fjölga lögreglumönnum um fimmtíu á þessu ári. Þannig var bæði ákveðið að fjölga bæði stöðugildum innan lögreglunnar um land allt en líka fjölda þeirra sem fá inngöngu í nám við lögreglufræði. Ráðherra hvatti alla áhugasama um fjölbreytt og krefjandi starf í þágu samfélagsins til að sækja um námið.

Unnið er að því að fjölga nemendum enn frekar á þessu kjörtímabili.

Metfjöldi brautskráðra næstu árin

Auk nýnema haustsins munu um 80 nemendur hefja síðara námsárið. Alls verða því um 176 nemendur í námi í lögreglufræðum næsta vetur, bæði á fyrra og seinna ári, og má gera ráð fyrir að það skili sér í metfjölda brautskráðra næstu árin.

Árið 2024 voru alls 795 lögreglumenn við störf á Íslandi, að frátöldum nemum og héraðslögmönnum. Brottfall innan lögreglu er umtalsvert og hefur aukist á undanförnum árum. Áform eru um að greina ástæður brottfalls innan lögreglunnar og leita leiða til að snúa þeirri þróun við.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta