Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2025 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Framtíð óperulistar á Íslandi loksins tryggð

Mynd: Samsett Þjóðleikhúsið/Harpa  - mynd

Frumvarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, um stofnun óperu var samþykkt á Alþingi í dag. Með samþykkt þess er óperunni tryggð sambærileg staða og öðrum sviðslistum og verður hún kjarnastofnun í óperulist á sama hátt og Þjóðleikhúsið í leiklist og Íslenski dansflokkurinn í danslist.

Markmið frumvarpsins er tryggja samfelldan og stöðugan grundvöll fyrir óperulist og efla hana sem grunnstoð í íslensku menningarlífi. Lögð er áhersla á samnýtingu fag- og stoðdeilda Þjóðleikhússins og náið samstarf við aðrar sviðslistastofnanir. Það efli óperulistina ásamt því að ná fram hagræðingu í rekstri og einföldun í stjórnsýslu. Jafnframt er lögð áhersla á að óperan verði aðgengileg almenningi óháð búsetu og efnahag, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkistjórnarinnar, að verkefnaval verði fjölbreytt og að stefnt verði að nýsköpun og framþróun í óperulist ásamt því að fela óperunni lögbundið fræðslu- og kynningarhlutverk. Loks býr frumvarpið söngvurum og öðru sviðslistafólki traustan starfsgrundvöll hér á landi.

„Dagurinn í dag markar mikilvæg tímamót í íslensku menningarlífi. Óperunni hefur loksins verðið tryggður sinn réttmæti sess í listaflóru landsmanna og það er afar ánægjulegt. Ég vil nýta tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóg: forvera mínum í starfi, allsherjar- og menntamálanefnd, undirbúningsnefndinni, Bandalagi íslenskra listamanna, Þjóðleikhúsráði og forstöðumönnum Hörpu og Þjóðleikhússins. Á sama tíma fagna ég því að samhent ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hafi náð að hrinda þessu mikilvæga máli í framkvæmd – og þannig loksins tryggt óperunni stöðugt, faglegt og fyrirsjáanlegt umhverfi,” segir Logi Einarsson.

„Samþykkt dagsins markar einnig fyrsta skrefið í stærra ferli: að móta framtíðarfyrirkomulag sviðslistastofnana á Íslandi. Þar er horft til sameiginlegrar yfirstjórnar fyrir starfsemi Þjóðleikhúss, óperu og Íslenska dansflokksins. Sú vinna mun að sjálfsögðu fara fram í góðu samráði við þessa aðila og býður upp á spennandi möguleika” segir Logi.

Aðsetur í Hörpu

Óperan verður rekin sem hluti af Þjóðleikhúsinu og mun hún hafa aðalaðsetur í Hörpu. Óperan nýtur þannig stuðnings allrar stoðstarfsemi Þjóðleikhússins, bæði innviða og þeirrar þekkingar sem þar er á ýmsum sviðum og deildum; svo sem rekstrarsviðs, leikmunadeildar, ljósadeildar, hljóðdeildar, búningadeildar og leikgervadeildar. Stofnun óperunnar innan Þjóðleikhússins tryggir þannig í öllum meginþáttum að óperan verður sterkari en ef hún væri sjálfstæð ríkisstofnun.

Samlegðaráhrifin af þessu fyrirkomulagi eru mikil og í samræmi við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Í skýrslu ríkisendurskoðanda til Alþingis frá desember 2021, um stofnanir ríkisins, fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni, var jafnframt sérstaklega bent á tækifæri í þessu skyni hjá menningarstofnunum á sviði sviðslista.

Ráðherra skipar óperustjóra til fimm ára í senn að fenginni tillögu hæfnisnefndar. Óperustjóri er listrænn stjórnandi óperunnar og ber ábyrgð á rekstri hennar og fjárhag. Hann ákveður starfsfólk hennar, þ.m.t. tónlistarstjóra og framleiðslustjóra óperuverkefna, auk söngvara og kórs, og skipuleggur störf þess. Þá velur hann listrænt teymi fyrir allar uppfærslur óperunnar, stýrir listrænni stefnu og verkefnavali. Óperustjóra er jafnframt heimilt að hafa listráð sér til ráðgjafar.

Ópera um allt land

Stefnt verður að því að óperan sýni víða, m.a. í Þjóðleikhúsinu, í Hofi á Akureyri og í Hörpu. Mikil áhersla verði lögð á samfélagslega tengingu óperunnar, með skírskotun til áherslu ríkisstjórnarinnar á að auka aðgengi landsmanna að menningarlífi óháð efnahag og búsetu. Í því samhengi verður sérstaklega leitað leiða til að auðvelda hópum sem ekki njóta góðs aðgengis að starfsemi óperunnar hlutdeild í henni, m.a. með sérkjörum á aðgöngumiðum og/eða öðrum leiðum.

Enn fremur verði leitað samstarfs við hópa og aðila sem sinna tónlistar- og sviðslistastarfi á landsbyggðinni til að virkja og styrkja það kröftuga starf sem þar fer þegar fram. Gengið verði út frá því að landið allt sé eitt atvinnusvæði og sóst eftir reglulegu samstarfi við kóra, hljómsveitir og hátíðir í öllum landsfjórðungum sem og nýtingu á þeim sýningarrýmum sem þar eru til staðar.

Samþætting og sköpun

Með tilkomu óperunnar opnast nýir möguleikar í samþættingu listgreina, skapandi frumkvöðlastarfi og endurnýjun listformsins. Auk þess mun óperan skapa starfsvettvang fyrir söngvara, hljóðfæraleikara, tónskáld, textahöfunda, hönnuði og leikstjóra, auka fjölbreytni í menningarstarfsemi hér á landi og stuðla að varðveislu og miðlun íslensks menningararfs og íslenskrar tungu í listsköpun.

Gera má ráð fyrir að blómleg óperulist á Íslandi hafi jákvæðar afleiddar afleiðingar, svo sem fyrir ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi, í þágu þeirra markmiða sem fram koma í stefnu stjórnvalda um málaflokkinn.

Nánar má fræðast um frumvarpið á vef Alþingis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta