Samið um umfangsmikil orkuskipti í Flatey
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, undirrituðu í gær, samning um orkuskipti í Flatey. Samningurinn leggur grunninn að nýtingu fjölbreyttra endurnýjanlegra orkugjafa í raforkukerfi eyjarinnar og mun um leið draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis við framleiðslu raforku.
Gert er ráð fyrir að með orkuskiptaðgerðunum verði hægt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem nemur 62%. Alls styrkir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið verkefnið um 215 milljónir króna, en með því verður greidd leið grænna sveiflukenndra orkugjafa á borð við sólar- og vindorku.
Meðal þeirra orkuskiptaaðgerða sem ráðist verður í strax í ár er bygging rafstöðvarhúss og uppsetning birtufleka (sólarrafhlaðna) á þaki hússins. Í kjölfarið verður árið 2026 farið í frekari framkvæmdir við stærra sólarorkuver í Flatey, en rafhlöður verða miðjan í nýju orkustjórnunarkerfi eyjarinnar. Áætlað er að framleiðsla þessara tveggja sólarorkuvera mun standa undir um 35% af orkuþörf í eynni. Sólarorka hentar vel í Flatey þar sem raforkuþörf er mest þegar sólin er hæst á lofti.
Orkubú Vestfjarða hefur umsjón með framkvæmdinni og er horft til þess að afhending raforku geti hafist strax árið 2026.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Samningurinn er mikilvægur áfangi og stórt skref í átt að orkusjálfbærni og útfösun jarðefnaeldsneytis í Flatey.”