Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2025 Innviðaráðuneytið

Þriggja milljarða viðbótarframlag í viðhald vega samþykkt í fjáraukalögum

Þrír milljarðar verða settir til viðbótar í viðhald vega á landsbyggðinni árið 2025. Alþingi samþykkti tillögu ríkisstjórnarinnar þessa efnis þegar fjáraukalög voru afgreidd á laugardag. Framlögin verða nýtt í verkefni um land allt en mörg þeirra verða á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem viðhald er brýnast. Vegagerðin hafði þegar hafið undirbúning verkefna ef tillagan yrði samþykkt og nú geta framkvæmdir farið á fullt.

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra: „Vegakerfið er ein stærsta eign íslenska ríkisins og nauðsynlegt er að halda því við. Með þriggja milljarða viðbótarframlagi bregðumst við strax við brýnustu þörfinni. Það jafngildir um 25% aukningu í framlögum til viðhalds vega miðað við meðalframlög síðustu ára. Á næsta ári verður viðbótarframlag til viðhalds vega hækkað enn frekar. Þetta er yfirlýsing um breytta forgangsröðun stjórnvalda. Ný ríkisstjórn hyggst með þessu rjúfa kyrrstöðu og hefja sókn við uppbyggingu innviða.“

Ný fjárveiting mun nýtast í styrkingu burðarlags vega og einnig verður veruleg viðbót á endurnýjun slitlags frá því sem annars hefði orðið. Þá verður sérstaklega farið í malbikun á þekktum blæðingarköflum. Öll verkefni sem Vegagerðin mun ráðast í voru tilbúin til útboðs en hefðu ekki farið af stað á þessu ári nema með ákvörðun um aukafjárveitingu.

Verkefni dreifast um landið

Verkefnin dreifast um allt land en brýnasta viðhaldsþörfin er á Vesturlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi, samkvæmt mati Vegagerðarinnar. Á Vesturlandi og Vestfjörðum verður ráðist í fjölmörg verkefni. Þar má nefna sem dæmi viðgerðir á Vestfjarðavegi (t.d. Haukadalsá-Brautarholt og á kafla við Gröf), Barðastrandarvegi (t.d. Kleifarheiði og Raknadalshlíð), Útnesvegi og Bíldudalsvegi, þar sem íbúar hafa lengi kallað eftir úrbótum.

Á Suðurlandi verður farið í endurbætur á Laugarvatnsvegi og á Norðurlandi verða teknir fyrir kaflar á Hringveginum, til dæmis í Ljósavatnsskarði, auk þess sem ráðist verður í endurbætur á Hólavegi í Hjaltadal. Þar er umferðarþungi mikill og slysatíðni há. Á Austurlandi verður einnig ráðist í mikilvægar endurbætur á Hringveginum. Loks verður farið í malbikun á nokkrum þekktum blæðingarköflum, svo sem í Bakkaselsbrekku í Öxnadal.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta