Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2025 Utanríkisráðuneytið

Áhersla á jafnréttismálin á sumarlotu Sameinuðu þjóðanna sem lauk í dag

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra flytur ávarp í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. - mynd

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna afgreiddi 26 ályktanir á sumarlotu ráðsins sem lauk í Genf í dag. Um var að ræða aðra fundarlotuna sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki mannréttindaráðsins tímabilið 2025-2027.

Sumarlota mannréttindaráðsins er gjarnan kölluð „jafnréttislotan“, enda setja jafnréttismál og ályktanir í þeim efnum jafnan svip á starf ráðsins. Ísland leggur áherslu á virka þátttöku í umræðum um jafnréttismál og stuðning við ályktanir sem eru í anda stefnu og gilda Íslands í jafnréttismálum. 

Nítján ályktanir voru að lokum samþykktar án atkvæðagreiðslu en kosið var um sjö. Af þeim sem kosið var um ber helst að nefna annars vegar ályktun um stöðu mannréttinda í Erítreu og hins vegar ályktun um endurnýjun umboðs óháðs sérfræðings um málefni hinsegin fólks. Ísland lagði mikla áherslu á stuðning við þau síðarnefndu var ályktunin samþykkt með 29 atkvæðum gegn 15, en þrjú ríki sátu hjá. Niðurstaðan þykir mjög jákvæð í ljósi bakslags í réttindabaráttu hinsegin fólks og í ljósi þess að talsverður fjöldi ríkja hefur horn í síðu þessa  málefnis.

Eitt stærsta málið í lotunni var reglubundin endurnýjun á umboði sérstaks skýrslugjafa um baráttuna gegn ofbeldi gagnvart konum og stúlkum. Ályktunin var að lokum samþykkt samhljóða eftir erfiðar og langar samningaviðræður þar sem hópur ríkja sem telur sér ógnað af auknum réttindum kvenna og stúlkna lagði fram fjölda breytingatillagna til að veikja umboðið. Samningar náðust um stærstan hluta en þeim þremur breytingatillögum sem fóru alla leið í atkvæðagreiðslu var hafnað. 

Ísland var ennfremur í kjarnahópi um endurnýjun umboðs sérstaks skýrslugjafa um funda- og félagafrelsi. Tékkland leiðir hópinn en auk Íslands eru þar einnig Litáen, Indónesía, Maldív-eyjar og Chile. Ályktunin var samþykkt samhljóða og umboð skýrslugjafans endurnýjað til þriggja ára.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra tók þátt í upphafi lotunnar og flutti ávarp í umræðum  um skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar um  hernumið svæði  Palestínu, þ.m.t. Austur Jerúsalem, og Ísrael (e. Independent International Commission of Inquiry on the occupied Palestinian territory, including East-Jerusalem and Israel). Auk þess fundaði dómsmálaráðherra með  fulltrúum alþjóðastofnana og fulltrúum þeirra helstu frjálsra félagasamtaka sem sérhæfa sig í mannréttindamálum og störfum  mannréttindaráðsins. 

Loks flutti dómsmálaráðherra opnunarávarp á hliðarviðburði sem Ísland stóð fyrir í tengslum við setuna í mannréttindaráðinu undir yfirskriftinni „Máttur kvennahreyfinga: Samstaða fyrir jafnrétti“. Í öndvegi hliðarviðburðarins var 18 mínútna stikla úr heimildamyndinni um kvennafrídaginn 1975, „The Day Iceland stood still“ sem leikstýrð er af Pamela Hogan og unnin í samstarfi við Hrafnhildi Gunnarsdóttir. Á eftir fylgdi umræða þar sem sjónum var auk þess beint að framlagi kvenna til loftslagsbaráttu á Maldív eyjum og friðaruppbyggingu í Sómalíu.

Auk fjölda sameiginlegra ávarpa Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem eiga náið samráð og samstarf í mannréttindaráðinu, flutti Ísland jafnframt nokkur ávörp í eigin nafni, m.a. í kjölfar framsögu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna þar sem virðing fyrir mannréttindum, alþjóðalögum og samvinna á alþjóðavettvangi voru í forgrunni. 

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fundar að jafnaði í þremur reglubundnum fundalotum á ári sem standa yfir í nokkrar vikur í senn. Frekari upplýsingar um setu Íslands í mannréttindaráðinu má finna á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta