Drög að nýjum heildarlögum um almannavarnir sett í Samráðsgátt
Dómsmálaráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi um heildarendurskoðun laga um almannavarnir í Samráðsgátt stjórnvalda. Um er að ræða nauðsynlega endurskoðun á almannavarnarlögum með það að markmiði að efla almannavarnarkerfið svo það verði sem best í stakk búið til að takast á við hvers konar áföll.
„Það er mikilvægt að almannavarnalöggjöfin sé í takt við þær fjölbreyttu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag. Með frumvarpinu stígum við mikilvægt og tímabært skref í átt að öflugra og skýrara almannavarnakerfi þar sem sérstök áhersla er lögð á að efla áfallaþol samfélagsins – að tryggja að innviðir, viðbragðsaðilar og allir landsmenn séu betur undir það búnir standa af sér áföll,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.
Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að efla viðbúnað samfélagsins til þess að bregðast við áföllum, en lykilatriði í því er að auka vægi fyrirbyggjandi aðgerða. Þá er markmið frumvarpsins að efla grunnskipulag almannavarna með því að skýra ábyrgð, skyldur og verkaskiptingu þeirra sem vinna að almannavörnum.
Áskoranir reynt á viðbragðskerfi landsins
Ljóst er að nauðsynlegt er að endurskoða lögin í heild, ekki síst í ljósi þeirra fjölmörgu áskorana sem íslenska almannavarnakerfið hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár. Núverandi lög um almannavarnir tóku gildi árið 2008 og hafa einungis sætt minniháttar breytingum.
Frá árinu 2019 hefur kerfið verið virkjað margsinnis vegna ólíkra ógna sem reynt hafa mjög á viðbragðskerfi landsins. Nefna má snjóflóð, landris, eldgos, heimsfaraldur, tölvuárásir og fleira sem dæmi um þær eðlisólíku áskoranir sem almannavarnakerfið hefur tekist á við.
Víðtækt samráð og heildstæð greiningarvinna á íslenska almannavarnakerfinu hefur leitt í ljós ákveðna veikleika, ekki síst þegar kemur að viðbúnaði samfélagsins fyrir áföll og getu þess til að standast röskun á lykilinnviðum. Þörf er á að styrkja áfallaþol samfélagsins með markvissari undirbúningi og skýrari verkaskiptingu.
Frumvarpsdrögin má nálgast í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til og með 8. ágúst nk.