Nýjung í rafrænum þinglýsingum
Pakkavirkni er ný þjónusta tengd rafrænum þinglýsingum sem stendur lánveitendum og fasteignasölum til boða.
Pakkaþjónustur fyrir kaupsamninga, veðskuldabréf og veðleyfi verða aðgengilegar lánveitendum og fasteignasölum frá og með 12. ágúst 2025. Með pakkavirkni verður hægt að sameina tengdar færslur í einn pakka sem þinglýst er í einu lagi, til dæmis við fasteignaviðskipti og endurfjármögnun lána. Þessi breyting mun auka skilvirkni, tryggja samræmi, stytta vinnslutíma og draga úr villuhættu þegar fleiri en ein færsla tengist sömu fasteignaviðskiptum.
Til stóð að gefa út pakkaþjónusturnar í byrjun júlí en því var frestað fram yfir sumarleyfi til að tryggja örugga innleiðingu. Þjónusturnar eru þegar aðgengilegar í prófanaumhverfi rafrænna þinglýsinga og lánveitendur og fasteignasölur (þinglýsingabeiðendur) geta því þegar innleitt pakkaþjónusturnar og hafið prófanir. Pakkaþjónusturnar innihalda reglugerðarstuðning og hafa farið í gegnum ítarlegar notendaprófanir.
Stórt skref í stafvæðingu fasteignakaupa
Pakkaþjónustan er stórt skref í stafvæðingu fasteignakaupa og lánaviðskipta sem mun skila miklum þjóðhagslegum ávinningi fyrir lánveitendur, kaupendur og seljendur. Slíkur ávinningur er ekki einungis fjárhagslegur heldur skilar sér sömuleiðis í bættri þjónustu á nútímalegri og umhverfisvænni hátt.
Nánari upplýsingar um pakkavirkni og pakkaþjónustu er að finna á Ísland.is.
Upplýsingar um rafrænar þinglýsingar
Upplýsingar um pakkavirkni og pakkaþjónustu í rafrænum þinglýsingum