Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjárfest í fagþróun kennara, skólastjórnenda og annars starfsfólks í skóla- og frístundastarfi

Silja Bára R. Ómarsdóttir rektor Háskóla Íslands, Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra, Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs HÍ og Soffía  Ámundadóttir - mynd

Mennta- og barnamálaráðherra, rektor Háskóla Íslands og forseti Menntavísindasviðs HÍ undirrituðu í dag samning um áframhaldandi stuðning við Menntafléttu og Íslenskuþorpið - námskeið í íslensku fyrir starfsfólk leikskóla og frístundaheimila.

Samningur þessi er einn af mörgum liðum í annarri aðgerðaáætlun menntastefnu 2030 þar sem áhersla er á öfluga starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annars starfsfólks leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs með það að markmiði að stuðla að bættu náms-, félags- og starfsumhverfi nemenda og starfsfólks.

Menntafléttan tekur mið af hugmyndafræði leiðtoganáms og þróun námssamfélags og byggir á rannsóknum á því hvernig starfsþróun getur best stutt við kennara í starfi. Námskeiðum Menntafléttunnar er ætlað að koma til móts við þær áskoranir sem menntakerfið okkar stendur frammi fyrir eins og komið hefur m.a. fram í skýrslum OECD og QUINT rannsókninni um gæði kennslu.

Gert er ráð fyrir að innan Menntafléttu verði á skólaárinu 2025-2026 boðið upp á þrjú ný námskeið; Nýliðar í kennslu, Gervigreind í skólastarfi og Skólaforðun. Einnig verða eftirfarandi fjögur námskeið sem áður hafa verið í boði undir hatti Menntafléttu en þau eru; Deildarstjórinn sem faglegur leiðtogi í leikskólastarfi, Lestur á yngsta stigi grunnskóla, Lausnahringurinn – forvarnir og fræðsla gegn ofbeldi og Erfið og krefjandi hegðun barna og unglinga – Hvað er til ráða?

Íslenskuþorpið er íslenskunámskeið með áherslu á orðræðu leikskólans fyrir starfsfólk leikskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli og er rekið undir hatti Menntafléttu. Með stuðningi ráðuneytisins er markmiðið að efla íslenskukunnáttu starfsmanna leikskóla og styrkja þau til starfa með leikskólabörnum á mikilvægasta málþroskaskeiði æskunnar.

„Það er nauðsynlegt að við snúum öll bökum saman þegar kemur að aðgerðum menntastefnunnar. Menntaflétta er öflug leið til að auka fagmennsku í skóla- og frístundastarfi og mæta um leið þeim áherslum sem ég og ráðuneyti mitt legg til grundvallar á komandi misserum,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

„Ég fagna því að menntayfirvöld og Háskóli Íslands hafi náð samkomulagi um að halda áfram að þróa og efla Menntafléttuna sem markvissan stuðning við skólastarf í landinu. Það þarf að tengja enn betur saman þá þekkingu sem menntarannsóknir skapa og fagþekkingu skólasamfélagsins. Menntafléttan er gott dæmi um farsæla samvinnu háskóla og nærsamfélags“, segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Undir þau orð tekur Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs. „Á vef Menntafléttu, menntaflettan.is, má einnig fá aðgang að úrvali opinna námskeiða á sviði stærðfræðikennslu, náttúrufræðikennslu og lesturs sem einstaka skóla og kennarar geta nýtt í sjálfstæða þróunarvinnu. Menntafléttan snýst um að efla lærdómssamfélagið innan skóla- og frístundastarfs í þágu barna og ungmenna.“

Að Menntafléttunni stendur breiðfylking hagaðila. Í stýrihópi sitja fulltrúar Menntavísindasviðs HÍ, Háskólans á Akureyri-Miðstöðvar skólaþróunar, Kennarasambands Íslands, Listaháskóla Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytis og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Þá mun Samband íslenskra sveitarfélaga skipa aðila í stýrihópinn fyrir næsta starfsár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta