Áform um stafræna málsmeðferð í Samráðsgátt
Dómsmálaráðherra hefur lagt fram áform í Samráðsgátt stjórnvalda um lögfestingu stafrænnar málsmeðferðar hjá sýslumönnum og dómstólum, í málum sem varða erfðalög, lög um aðför og lög um nauðungarsölu. Markmiðið með breytingunum er að einfalda og bæta þjónustu, tryggja skilvirkari afgreiðslu mála og styðja við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu.
Með frumvarpinu er jafnframt stigið mikilvægt skref til að tryggja jafnara aðgengi að opinberri þjónustu, óháð búsetu. Stefnt er að því að tryggja rétt almennings til rafrænnar og stafrænnar málsmeðferðar hjá sýslumönnum og dómstólum.
„Við viljum tryggja að almenningur fái einfaldari, hraðari og öruggari afgreiðslu sinna mála. Með þessum breytingum stígum við markvisst skref í átt að skilvirkari opinberri þjónustu og mætum þörfum landsmanna, hvar sem þeir búa,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra.
Stafrænar lausnir gefið góða raun
Mikil og hröð tækniþróun hefur átt sér stað á sviði stafrænna lausna innan stjórnsýslunnar undanfarin ár. Þau lög sem frumvarpið snýr að hafa ekki fylgt þessari miklu tækniþróun og mæta ekki þörfum almennings fyrir skilvirka og einfalda málsmeðferð.
Frá árinu 2020 hafa verið í gildi bráðabirgðaheimildir sem heimila rafræna málsmeðferð vegna skipta á dánarbúum. Þessi úrræði hafa reynst vel og skilað betri, skilvirkari og hagkvæmari afgreiðslu mála. Þær heimildir falla úr gildi í upphafi næsta árs og er því brýnt að festa þær í sessi til frambúðar til að forðast afturför.
Áformin má nálgast í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til og með 31. júlí næstkomandi.