Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2025 Utanríkisráðuneytið

Ísland og EFTA-ríkin ljúka viðræðum við Singapúr um stafrænt hagkerfi

EFTA-ríkin, það er Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa komist að samkomulagi við Singapúr um samning um stafrænt hagkerfi (e. Digital Economy Agreement). Samkomulagið verður hluti af fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Singapúr, sem hefur verið í gildi frá árinu 2003.

Samkomulagið felur í sér reglur og skuldbindingar sem miða að því að skapa traustar og fyrirsjáanlegar reglur utan um rafræn viðskipti á milli aðila. Þar á meðal eru ákvæði sem tryggja varanlegt bann við tollheimtu á rafrænar sendingar og ákvæði sem eiga að stuðla að notkun rafrænna skjala, greiðslna og undirskrifta í viðskiptum milli samningsaðila. Þá eru ákvæði um gagnaflæði yfir landamæri sem banna staðbundna geymsluskyldu gagna og tryggja fyrirtækjum valfrelsi um hvar þau vista gögn sín. Þar er jafnframt að finna ákvæði um persónuvernd og neytendavernd auk þess sem lögð er áhersla á að tryggja öruggt og áreiðanlegt viðskiptaumhverfi á netinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem bæði Ísland og EFTA-ríkin í sameiningu ljúka við gerð samnings um stafrænt hagkerfi. Singapúr hefur hinsvegar verið frumkvöðull á þessu sviði og er þegar aðili að fjölmörgum slíkum samningnum.

Utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fagnar niðurstöðunni:

„Þetta samkomulag er jákvætt fyrir íslensk fyrirtæki og almenning þar sem það styrkir stafrænt viðskiptaumhverfi milli Íslands og Singapúr. Rafræn þjónusta og gagnamiðlun gegna sífellt stærra hlutverki í alþjóðaviðskiptum og því er mikilvægt að við hugum frekar að alþjóðlegri samvinnu í regluverki á þessu sviði.“

Næstu skref eru lagaleg yfirferð, undirritun samkomulagsins og fullgildingarferli hjá hverjum og einum aðila samningsins. Nánar má lesa um innihald samningsins á heimasíðu EFTA.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta