Forseti framkvæmdastjórnar ESB sækir Ísland heim
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) heimsækir Ísland dagana 16.-18. júlí nk. og fundar með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Efnt er til heimsóknarinnar í kjölfar fundar forsætisráðherra með Von der Leyen í Brussel í apríl.
Staða alþjóðamála, öryggis- og varnarmál, viðskiptamál, almannavarnir og loftslagsmál verða í brennidepli og tekur dagskrá heimsóknarinnar mið af því.
Fundur Von der Leyen með forsætisráðherra og utanríkisráðherra fer fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, en hún hyggst sömuleiðis kynna sér starfsemi almannavarna sem og áfallaþol á Íslandi í heimsókn til Grindavíkur, þar sem hún fer jafnframt í skoðunarferð um varnargarðana í Svartsengi. Þá er heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum einnig á dagskrá forseta framkvæmdastjórnar ESB.
„Þessi vinnuheimsókn er til marks um aukið samstarf Íslands og Evrópusambandsins á vettvangi öryggismála og er liður í stefnu ríkisstjórnarinnar um að skerpa sýn helstu bandamanna okkar á viðvarandi öryggisáskoranir á norðurslóðum og í Norður-Atlantshafi. Við höfum um áratugaskeið átt afar farsælt samstarf við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á grunni EES-samningsins og það er mikið fagnaðarefni að forseti framkvæmdastjórnarinnar komi hingað til að kynna sér betur okkar sérstöðu, bæði þær áskoranir sem við búum við sem og þau fjölmörgu samstarfstækifæri sem hér er að finna,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.