118 milljónum úthlutað til orkusparandi aðgerða í gróðurhúsum
Loftslags- og orkusjóður hefur úthlutað rúmlega 118 milljónum króna í styrki til 10 verkefna sem miða að því að draga úr orkunotkun í íslenskum gróðurhúsum, sem getur skilað orkusparnaði upp á allt að 8,3 GWst á ári.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði breytingu á reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð í vor og fól sjóðnum að veita garðyrkjubændum sérstakan fjárfestingarstuðning í þágu bættrar orkunýtni og orkusparnaðar.
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku og loftslagsráðherra: „Þetta er áherslumál ríkisstjórnarinnar og í fyrsta skipti í áratugi sem stjórnvöld ráðast í skipulegan fjárfestingarstuðning við framleiðendur garðyrkjuafurða. Fjárfestingarstyrkirnir munu skila sér í lægri orkureikningum fyrir bændur, bættri orkunýtni og aukinni framleiðni í greininni. Orkusparnaðurinn er verulegur og jafngildir árlegri raforkunotkun 2 þúsund heimila. Við höldum áfram að láta verkin tala í orku- og atvinnumálum.“
Verkefnin sem hljóta styrk snúa að tæknivæðingu og bættri lýsingu með LED-lausnum sem styðja við tæknivæðingu og samkeppnishæfni greinarinnar og getur skilað áætluðum orkusparnaði upp á 8,3 GWst á ári. Sá sparnaður samsvarar raforkunotkun 2.029 heimila eða árlegri orkunotkun 2.774 rafbíla. Auglýstar voru 160 m.kr. til úthlutunar en sótt var um styrki að fjárhæð 145 m.kr. Stefnt er að öðru umsóknarferli í haust.
Við úthlutun er lögð áhersla á verkefni sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu og stuðla að betri rekstrarhagkvæmni í gróðurhúsum, auk þess sem þau nýtist sem fyrirmyndir fyrir aðra í greininni.