Áform um einfaldari og skilvirkari meðferð bótakrafna kynnt í samráðsgátt
Dómsmálaráðherra hefur lagt fram áform í Samráðsgátt stjórnvalda um lagabreytingar sem miða að því að einfalda meðferð bótakrafna sem gerðar eru á grundvelli laga um meðferð sakamála. Markmið breytinganna er að þeir sem eiga rétt til bóta geti nálgast þær á einfaldari, skýrari og fyrirsjáanlegri hátt og þannig dregið úr þörf fyrir málarekstur. Með því minnkar álag hjá dómstólum og dregið er úr kostnaði.
„Við viljum gera fólki sem á rétt til bóta kleift að nálgast þær án þess að þurfa að fara í gegnum tímafrekan og kostnaðarsaman málarekstur. Með þessum breytingum aukum við fyrirsjáanleika, drögum úr álagi á dómstólum og tryggjum jafnframt að réttindi einstaklinga séu virt,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Samkvæmt gildandi lögum þurfa einstaklingar sem krefjast bóta vegna aðgerða í þágu rannsóknar sakamála, til að mynda gæsluvarðhalds, handtöku eða haldlagningar, að leita réttar síns fyrir dómstólum ef sátt næst ekki við ríkislögmann. Þótt lög kveði á um gjafsókn í slíkum málum hefur sú leið reynst tímafrek og kostnaðarsöm, ekki síst í þeim tilvikum þar sem um lágar fjárhæðir er að ræða.
Aukið jafnræði og fyrirsjáanleiki með viðmiðunarreglum
Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilt verði að setja viðmiðunarreglur um fjárhæðir bóta sem ríkislögmanni verður ætlað að líta til við meðferð bótakrafna. Slíkar viðmiðunarreglur stuðla að fyrirsjáanleika, auknu jafnræði og skilvirkni.
Réttur til þess að vísa málum til dómstóla er áfram sá sami og gjafsókn metin eftir almennum reglum.
Áformin eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til og með 31. júlí næstkomandi.