Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2025 Innviðaráðuneytið

Ný heildarlög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga samþykkt á Alþingi

Ný heildarlög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga voru samþykkt á Alþingi í dag. Markmið laganna er að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr sjóðnum, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Lögin marka tímamót þar sem þetta er í fyrsta sinn sem sérstök lög eru samþykkt um Jöfnunarsjóð. Áður var fjallað um málefni sjóðsins í lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

„Síðastliðin tuttugu ár hafa verið gerðar margar tilraunir til breytinga á regluverki Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Niðurstöður þeirrar vinnu einkenndust af litlum skrefum í átt að bættu kerfi. Nýju lögin fela í sér miklar framfarir. Sjóðurinn er nú einfaldari í skipulagi, gegnsærri og jöfnunarframlögin verða réttlátari og markvissari. Þá mun nýja regluverkið einnig endurspegla þær breytingar sem orðið hafa á sveitarfélagaskipan í landinu. Næsta skref er að hefja endurskoðun á grunnskólaframlagi sjóðsins. Undirbúningur þess er þegar hafinn og mun leiða til enn réttlátara kerfi fyrir öll sveitarfélög í landinu.“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Þannig er stuðlað að því að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

Veigamesta breytingin með frumvarpinu er að nýtt líkan Jöfnunarsjóðs mun leysa af hólmi núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög. Um er að ræða gagnsætt líkan sem sameinar ofangreind framlög í eitt framlag. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta