Samkomulag við Portúgal vegna Uppbyggingarsjóðs EES undirritað
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands gagnvart Portúgal, undirritaði í síðustu viku samkomulag varðandi nýtt framkvæmdatímabil Uppbyggingarsjóðs EES 2021-2028 milli Íslands, Liectenstein og Noregs annars vegar og Portúgal hins vegar.
Nú hefst undirbúningur úthlutana úr sjóðnum í Portúgal á nýju sjóðstímabili 2021-2028. Markmið Uppbyggingarsjóðsins er að stuðla að félagslegri og efnahagslegri samheldni innan Evrópu, og efla tvíhliða tengsl milli gjafríkjanna, þ.e. Íslands, Liechtenstein og Noregs, og þeirra fimmtán ríkja Evrópusambandsins sem njóta stuðningsins.
Rannís mun gegna hlutverki sérstaks samstarfsaðila í tveimur af áætlunum sjóðsins í Portúgal á tímabilinu, annars vegar á sviði blás hagvaxtar („Blue Growth“) og hins vegar menningar („Culture“).
Samstarf Íslands og Portúgal á grundvelli Uppbyggingarsjóðsins byggir á traustum grunni samstarfs á fyrri sjóðstímabilum og endurspeglar árangursríka samvinnu ríkjanna á sviðum á borð við bláan hagvöxt, nýsköpun, menningu og jafnréttismál.