Ísland og ESB efla samstarf um málefni hafsins og sjávarútvegsmál
Ísland og Evrópusambandið undirrituðu 15. júlí síðastliðinn viljayfirlýsingu um aukið samstarf í málefnum hafsins og sjávarútvegi. Yfirlýsingin var undirrituð af Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Costas Kadis sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins og er grunnur að auknu framtíðarsamstarfi sem byggir á sameiginlegum gildum og sameiginlegum hagsmunum.
Yfirlýsingin gerir einnig ráð fyrir fyrir auknu og víðtækara samstarfi milli ESB og Íslands um ýmis atriði tengd hafinu, s.s. sjálfbærum fiskveiðum, vísindarannsóknum og verndun hafsins. Einnig er stefnt að auknu samstarfi við verndun líffræðilegs fjölbreytileika og orkuskipti í sjávarútvegi og fiskeldi.
Mikilvægur þáttur viljayfirlýsingarinnar er árlegur samráðsfundur ráðherra sjávarútvegsmála Íslands og sjávarútvegsstjóra ESB sem haldinn verður til skiptis af ESB og Íslandi. Tilgangur samráðsfundarins er að fjalla um málefni hafsins til að efla megi samstarf milli Íslands og ESB. Fyrsti fundurinn er áætlaður í byrjun ársins 2026.
Eflt samstarf um fiskveiðar og verndun hafsins
Í tengslum við undirritun viljayfirlýsingarinnar funduðu Hanna Katrín Friðriksson og Costas Kadis um fjölmörg mál tengd fiskveiðum og hafinu, þar á meðal þörfina á heildarsamkomulagi um skiptingu sameiginlegra stofna í Norðaustur Atlantshafi, bláa hagkerfið og málefni hafsins.
Bæði lögðu áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs til að tryggja að nýting sjávarauðlinda byggist á bestu fáanlegu vísindalegu ráðgjöf. Einnig var rætt mikilvægi þess að samræma aðgerðir til að fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum um líffræðilega fjölbreytni og tryggja þannig sjálfbæra nýtingu og vernd viðkvæmra tegunda.
Brýnt ákall um aðgerðir í stjórn málefnum hafsins
ESB og Ísland lögðu áherslu á mikilvægi þess að staðfesta sem fyrst hafréttarsamning SÞ um líffræðilega fjölbreytni, tímamótasamkomulag sem miðar að því að vernda og tryggja sjálfbæra nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika á svæðum utan lögsagna.
ESB og Ísland hafa lengi verið í öflugu og nánu samstarfi á sviði fiskveiða og hafmála. Þessi viljayfirlýsing styrkir samstarfið enn frekar með því að skapa formlega umgjörð fyrir aukið samstarf á þessu sviði.
„Ísland hefur náin tengsl við ESB og við deilum gildum og hagsmunum á flestum sviðum sagði Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra við undirritun. „Með þessari viljayfirlýsingu erum við að sýna gagnkvæman vilja okkar um samstarf til að tryggja sjálfbærar fiskveiðar og takast á við fjölmargar áskoranir tengdar hafmálum í Norður-Atlantshafi – bæði í dag og til framtíðar.“
Costas Kadis sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins tók í svipaðan streng:
„Ísland er sögulega náinn samstarfsaðili ESB. Í dag erum við að dýpka samstarf okkar til að tryggja sjálfbærar fiskveiðar og efla samstarf í hafmálum. Þetta mun hjálpa okkur að takast á við sameiginlegar áskoranir í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum sem krefjast munu mjög aukinnar alþjóðlegrar samvinnu á næstu árum.“