Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Varað við fölsuðum OxyContin töflum

Heilbrigðisráðuneytið vekur athygli á því að í gær birtist viðvörun Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði um falsaðar OxyContin töflur sem bárust þeim nýverið til greiningar, annars vegar frá Norðurlandi og hins vegar frá höfuðborgarsvæðinu. Viðvörunin er gerð í samráði við starfshóp um samræmingu gagna og snemmbúnar viðvarandi við fíkniefnafaraldri.

Töflurnar líkjast OxyContin 80 mg töflum í útliti en innihalda ekki oxýkódon heldur parasetamól, koffín, kódein, klónazepam, bíperíden og ketórólak.

Lyfjastofnun varar eindregið við töflum af þessu tagi:

  • Efnin sem greind hafa verið í fölsuðu töflunum eru sum hver notuð í lyfjum sem gefin eru við miklum verkjum, önnur við Parkinsonsveiki, enn önnur við flogaveiki.
    Ekki er ljóst hver samverkan efnanna í fölsuðu töflunum gæti orðið, áhrifin gætu orðið ófyrirsjáanleg og valdið alvarlegum heilsufarsáhrifum.

Rétt þykir að benda á að ef parasetamól er tekið í miklu magni er hætta á lifrarskemmdum. Þá geta bæði klónazepam og kódein valdið öndunarbælingu og sljóleika og ef þau eru notuð samhliða geta þessi áhrif magnast. Bíperíden getur valdið ruglingi, sjóntruflunum og jafnvel ranghugmyndum, við mikla ofskömmtun er hætta á losti vegna hjartaáfalls og öndunarstöðvunar. Bent er á að naloxón (Nyxoid) nefúði vinnur ekki gegn ofskömmtun af þessum efnum.

Minnt er á að:

  • Ávallt skal hringja í Neyðarlínu 112  vegna gruns um ofskömmtun.
  • Gefa skal naloxón (Nyxoid nefúða) ef grunur er um ofskömmtun ópíóíða og einnig skal hringja í Neyðarlínu – 112 – eftir að naloxón hefur verið gefið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta