Áætlun um innleiðingu EES-gerða á fjármálamarkaði lögð í samráðsgátt
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda áætlun um innleiðingu 52 EES-gerða á fjármálamarkaði.
Stór hluti af löggjöf á sviði fjármálamarkaðar á rætur að rekja til tilskipana og reglugerða sem Evrópusambandið samþykkir og eru svo teknar upp í EES-samninginn. Í áætluninni er greint frá því hvernig ráðuneytið áformar að forgangsraða vinnu við innleiðingu veigameiri gerða sem hafa verið eða fyrirséð er að verði teknar upp í EES-samninginn en á eftir að leiða í landslög. Gerðirnar varða meðal annars stafrænt öryggi fjármálageirans, eiginfjárkröfur til banka, ökutækjatryggingar, hópfjármögnun og græn skuldabréf.
Frestur til að senda umsagnir um áætlunina er til og með 1. september næstkomandi.