Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 18. júlí 2025

Heil og sæl.

Í vikunni tóku Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á móti Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB). Í heimsókninni voru öryggismál í brennidepli og var ákveðið að hefja viðræður um gerð samstarfsyfirlýsingar milli Íslands og ESB um öryggis- og varnarmál. Á fundi forsætisráðherra og utanríkisráðherra með von der Leyen var einnig hrint af stað fyrirhugaðri endurskoðun á viðskiptakjörum Íslands við ESB. Leiðtogarnir ræddu einnig þátttöku Íslands í áætlun ESB um örugg fjarskipti í gegnum gervihnetti. Þá voru málefni Norðurslóða einnig rædd á fundinum og tilkynnti von der Leyen fyrirhugaða endurskoðun á norðurslóðastefnu ESB og áhuga sambandsins að leita eftir samstarfi við Ísland á þeim grundvelli.

  

 

Í síðustu viku tók Þorgerður Katrín á móti Hardeep Singh Puri, olíu- og gasmálaráðherra Indlands, og ræddi við hann um möguleika jarðhita sem orkuauðlindar á Indlandi og samstarf ríkjanna á því sviði.

  

Þá staðfesti Almennur dómstóll Evrópusambandsins niðurstöðu Hugverkastofu Evrópusambandsins íslenskum stjórnvöldum í vil varðandi vörumerkið ICELAND. Niðurstaðan er staðfesting á því að Iceland Foods Ltd. getur ekki lengur hindrað íslensk fyrirtæki að auðkenna sig með upprunalandinu við markaðssetningu. „Það skiptir höfuðmáli fyrir fyrirtækin okkar að geta vísað til upprunans, til hreinleikans og til sérstöðu okkar á alþjóðavettvangi. Það felast verðmæti í heiti landsins og við stöndum áfram vörð um þessa hagsmuni fyrir Ísland, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um niðurstöðuna.

  

Fjórða ráðstefnan um enduruppbyggingu í Úkraínu (e. Ukraine Recovery Conference, URC) var haldin í Róm dagana 10. og 11. júlí. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sótti ráðstefnuna fyrir hönd Íslands, en þar komu saman fulltrúar félagasamtaka, alþjóðastofnana, ríkisstjórna og einkageirans til að ræða áframhaldandi stuðning við málefni Úkraínu, finna leiðir til fjármögnunar og tryggja breiða þátttöku í enduruppbyggingu landsins. Ráðstefnan var haldin í skugga aukinna árása Rússlands á Úkraínu, sem Volodómír Selenskí Úkraínuforseti gerði að umtalsefni í ræðu sinni í byrjun fundar.

  

Íslensk stjórnvöld undirrituðu á dögunum samning við IRENA, alþjóðlega stofnun um orkumál. Með samningnum stendur til að halda á lofti mikilvægi notkunar sjálfbærrar orku. Ísland mun á grundvelli samningsins leggja til þekkingu á sviði jafnréttis- og orkumála.

Í síðustu viku heimsótti Þórir Ibsen, sendiherra í Peking, borgina Dalian og var viðstaddur undirritun á samstarfssamningi milli Dalian Ocean University og Sjávarútvegsskóla GRÓ. Samningnum er ætlað að efla samstarf Íslands og Dalian á sviði sjávarútvegs og fiskveiða.

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, átti afar vel heppnaða heimsókn til Québec nýverið. Hlynur var viðstaddur afhjúpun minnisvarða Leifs Eiríkssonar við St. Lawrence-fljót. Hlynur nýtti heimsóknina til að funda með embættismönnum um frekara samstarf á sviði grænnar orku, nýsköpunar og málefni norðurslóða. Þá var Hlynur einnig viðstaddur fögnuði á aðalræðisskrifstofu Frakka í Québec á Bastilludeginum.

 

Í Lilongwe tók sendiráð Íslands, ásamt sendiráði Noregs, þátt í viðburði Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) þar sem lögð var áhersla á mannréttindi jaðarsettra hópa. Davíð Bjarnason, forstöðumaður sendiráðsins í Lilongwe, flutti ræðu á viðburðinum þar sem hann undirstrikaði mikilvægi mannréttinda fyrir alla og að verkefnið sýni að mögulegt sé að efla mannréttindi með skipulögðu samstarfi.

  

Þá bárust fagnaðartíðindi frá Mangochi-héraði en yfir 300 þúsund tré hafa verið gróðursett á 50 stöðum til að vernda náttúruauðlindir, bæta jarðveg og styðja við sjálfbæra landnýtingu. Í nýlegri heimsókn kynntust starfsmenn sendiráðsins meðlimum náttúruverndarnefndar í Nchocholo og starfsfólki og nemendum Koche-grunnskólanum sem gegna lykilhlutverki í verkefninu.

  

Sendiráðið í Tókýó kvaddi Ryosuke Rio Hosaka viðskiptafulltrúa og þakkaði honum fyrir vel unnin störf á síðastliðnum sjö árum. Á myndinni má sjá Rio og Ragnar Þorvarðarson, varamann sendiherra.

  

Fleira var það ekki þessa vikuna - góða helgi!

Kveðja,

Uppló

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta