Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ein tuttugu og átta utanríkisráðherra sem skrifa undir ákall um tafarlausar lyktir stríðsins á Gaza. Ráðherrarnir fordæma í sameiginlegri yfirlýsingu hvernig staðið er að veitingu mannúðaraðstoðar á Gaza og dráp á óbreyttum borgurum, þ.m.t. börnum, sem eiga sér það markmið eitt að tryggja sér aðgengi að grunnþörfum eins og vatni og mat. Hryllilegt sé að meira en 800 Palestínumenn hafi verið drepnir við slíkar aðstæður. Óviðunandi sé að Ísrael neiti óbreyttum borgurum um aðgengi að mannúðaraðstoð. Ísrael verði að uppfylla skyldur sem alþjóðleg mannúðarlög fela þeim á hendur.
Undir sameiginlegu yfirlýsinguna skrifa auk Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherrar Ástralíu, Austurríkis, Belgíu, Bretlands, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Frakklands, Grikklands, Hollands, Írlands, Ítalíu, Japans, Kanada, Kýpur, Lettlands, Litháens, Lúxemborgar, Möltu, Nýja Sjálands, Noregs, Portúgals, Póllands, Slóveníu, Spánar, Sviss og Svíþjóðar. Þá á framkvæmdastjóri Evrópusambandsins í málefnum jafnréttis, viðbragðsgetu og neyðarþjónustu aðild að yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni eru Hamas-samtökin fordæmd fyrir að halda fólki áfram í gíslingu og kallað er eftir því að öllum gíslum verði sleppt undir eins og án skilyrða. Vopnahlé feli í sér bestu vonina um að hægt verði að fá þá lausa og binda þannig enda á þjáningar ættingja þeirra.
Í yfirlýsingunni er tillögum sem ísraelskir ráðamenn hafa orðað um flutning Palestínumanna á Gaza í svokallaða „mannúðarborg“ á Gaza lýst sem fullkomlega óviðunandi. Varanlegir nauðungarflutningar fólks séu brot á alþjóðamannúðarlögum. Þá lýsa utanríkisráðherrarnir sig algerlega andsnúna öllum lýðfræðilegum breytingum eða breytingum á yfirráðum á landsvæði á Vesturbakkanum. Áform ísraelskra stjórnvalda í þeim efnum og áframhaldandi landtaka á Vesturbakkanum og Austur Jerúsalem sé brot á alþjóðalögum og grafi undan tveggja ríkja lausninni svonefndu.
Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér.
Framundan er ráðstefna í New York á vegum Sameinuðu þjóðanna um tveggja ríkja lausnina svokölluðu og fer hún fram dagana 28.-30. júlí. Stjórnvöld í Frakklandi og Sádi-Arabíu hafa staðið straum af skipulagningu ráðstefnunnar, sem upphaflega átti að fara fram 17.-20. júní en var frestað þá vegna hernaðarátaka milli Ísraels og Írans. Tilgangur ráðstefnunnar er sá að leita leiða til að hrinda tveggja ríkja lausninni í framkvæmd. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra mun sækja ráðstefnuna fyrir Íslands hönd.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem utanríkisráðherrar Grikklands, Kýpur og Möltu bættust í hópinn eftir að yfirlýsingin var birt.