Áform um brottfararstöð kynnt í samráðsgátt
Dómsmálaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um frumvarp til laga um brottfararstöð. Frumvarpið kveður á um heimildir og skilyrði fyrir vistun útlendings á brottfararstöð vegna ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið og þegar mál sem getur leitt til slíkrar ákvörðunar er til meðferðar.
„Við erum að vinna eftir markvissri en jafnframt ábyrgri stefnu í útlendingamálum og frumvarpið er mikilvægur liður í þeirri vinnu. Ísland er í dag eina Schengen-ríkið sem ekki rekur brottfararstöð. Ítrekað hefur verið bent á að ekki sé forsvaranlegt að vista þessa einstaklinga í fangelsum landsins. Með þessu tökum við markvisst skref til að ná betri stjórn á landamærum og tryggjum að málsmeðferð okkar í útlendingamálum sé í samræmi við Norðurlöndin,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Ábyrg stefna í útlendingamálum
Markmið frumvarpsins er að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Schengen-samstarfinu með því að setja skýrar reglur um hvenær og að hvaða skilyrðum uppfylltum sé heimilt að vista einstaklinga á brottfararstöð. Með frumvarpinu er stefnt að því að samræma íslenska lagaumgjörð og framkvæmd í útlendingamálum við Norðurlöndin.
Vistun einstaklinga á brottfararstöð, í þeim tilgangi að flytja viðkomandi af landi brott, snertir grundvallarmannréttindi þeirra og er því háð ströngum takmörkunum. Í frumvarpinu eru settar skýrar reglur um skilyrði fyrir slíkri vistun, málsmeðferð fyrir dómstólum, réttindi og skyldur einstaklinga og fleira. Þá er mælt fyrir um að vistun skuli aðeins koma til greina þegar vægari úrræði duga ekki til.
Brugðist við alvarlegum aðfinnslum eftirlitsaðila
Frumvarpið byggir á langri undirbúningsvinnu en á undanförnum árum hafa eftirlitsaðilar Schengen-samstarfsins bent á að það brjóti gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands að vista útlendinga í þessari stöðu í fangelsi. Gert er ráð fyrir að í brottfararstöð verði tryggður viðeigandi aðbúnaður og þjónusta fyrir einstaklinga sem bíða brottvísunar.
Skimunarferli við komu til landsins
Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að innleidd verði svokölluð skimunarreglugerð. Reglugerðin kveður á um að ríkisborgarar þriðju ríkja sem koma að ytri landamærum Schengen-svæðisins skuli sæta ákveðnu skimunarferli áður en frekari ákvörðun um framhald er tekin. Í því felst meðal annars auðkenning, bakgrunnsathugun, bráðabirgðamat á heilsu og mat á því hvort viðkomandi sé í viðkvæmri stöðu.
Slíkar ráðstafanir eru þegar gerðar hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga þegar einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd. Skimunarreglugerðin kveður þó á um að ferlið eigi einnig að ná til þeirra sem koma ólöglega til landsins án þess að sækja um vernd og þeirra sem dvelja ólöglega í landinu án þess að hafa áður verið skimaðir við komu.
Áformin eru aðgengileg í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til og með 5. ágúst næstkomandi.