Mat á stöðu stafrænna mála í heilbrigðiskerfinu og næstu skref
Á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur verið unnið að umfangsmiklu, formlegu mat á stöðu stafrænnar þróunar og gagnamála í heilbrigðiskerfinu hér á landi á liðnum mánuðum. Markmiðið vinnunnar var að greina tækifæri til umbóta og móta stefnu til framtíðar. Greiningarskýrsla um niðurstöður matsins verður birt í lok sumars. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um stöðu þessara mála sem verða grunnur að þeirri vinnu sem framundan er til úrbóta á þessu sviði. Markviss stafræn þróun er lykilatriði til að bæta skilvirkni, nýtingu fjármuna og gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Svava María Atladóttir, framkvæmdastjóri þróunar hjá Landspítala hefur leitt verkefnið í samstarfi við Morten Thorkildsen, norskan ráðgjafa á þessu sviði og fyrrverandi framkvæmdastjóra IBM í Noregi.
Svava María fékk tímabundið leyfi frá Landspítala til að sinna verkefninu. Liður í greiningarvinnunni var ýtarleg úttekt með matstækjum og ferlum alþjóðlegra samtaka stafrænna mála í heilbrigðisþjónustu HIMSS (Healthcare Information and Management Systems Society) á stafrænum sjúkraskrárkerfum fjögurra heilbrigðisstofnana (HH, HSA, Landspítali, Orkuhúsið) og notkun þeirra.
Í framhaldi af árangursríku starfi Svövu Maríu óskaði heilbrigðisráðuneytið eftir framlengingu og liggur nú fyrir að muni hún sinna frekari vinnu við að útfæra tillögur sem styðja við markmið ráðuneytisins um meiri samfellu í þjónustu, bætta notendaupplifun og skilvirkari rekstur. Með þessu er stigið markvisst skref í átt að samræmdri þróun stafrænna lausna þvert á kerfið.