Hoppa yfir valmynd
6. ágúst 2025 Utanríkisráðuneytið

Íslensk félagasamtök styrkja viðnámsþrótt viðkvæmra samfélaga í Malaví

Úr heimsókn fulltrúa Íslands í Chikwawa nýverið. - myndMynd/Stjórnarráðið

Í Chikwawa-héraði í suðurhluta Malaví eru starfrækt þrjú samstarfsverkefni íslenskra og malavískra félagasamtaka, með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu. Í Chikwawa búa í kringum 600 þúsund manns en héraðið er eitt það fátækasta í Malaví og er sérstaklega útsett fyrir veðuröfgum. Flestir íbúar starfa við landbúnað, en langvarandi þurrkar, flóð og fellibyljir hafa herjað á héraðið síðustu ár og valdið skemmdum á innviðum, heimilum og ræktunarlandi, sem leitt hefur af sér mikið fæðuóöryggi fyrir íbúa.

SOS Barnaþorpin, Rauði krossinn á Íslandi og Hjálparstarf kirkjunnar hafa öll um árabil verið lykilsamstarfsaðilar ráðuneytisins úr röðum frjálsra félagasamtaka í þróunarsamvinnu. Verkefni þeirra í Chikwawa hafa öll það markmið að efla viðnámsþrótt og sjálfbærni samfélaga sem glíma við erfiðar áskoranir á borð við afleiðingar loftslagsbreytinga, fátækt og takmarkaðan aðgang að grunnþjónustu.

Davíð Bjarnason, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe, og Ósk Sturludóttir, sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, kynntu sér verkefnin í heimsókn nýlega.

„Það er ánægjulegt að sjá hve mikil samlegð er á milli verkefnanna og áætlana héraðsstjórnar Chikwawa sem hefur lýst yfir mikilli ánægju með árangurinn og metur samstarfið við íslensk félagasamtök á svæðinu afar mikils,“ segir Davíð.

Þátttaka samfélagsins í Chikwawa og yfirvalda á svæðinu skipti miklu máli til að tryggja sjálfbærni og hámarka árangur við framkvæmd verkefnanna. Slík nálgun er grundvöllur fyrir þróunarsamvinnu Íslands í Malaví og því ríma verkefnin vel við aðra þróunarsamvinnu í landinu.

Malaví hefur verið samstarfsland Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu í 36 ár en landið er eitt það fátækasta í Afríku. Frjáls félagasamtök eru lykilsamstarfsaðilar Íslands í þróunarsamvinnu en verkefnin eru hluti af rammasamningum íslenskra félagasamtaka við utanríkisráðuneytið. Nýir samningar til fjögurra ára voru undirritaðir í mars síðastliðnum en þeir tryggja stöðugan grunn fyrir langtímasamstarf og gera félagasamtökunum kleift að skipuleggja starf sitt með aukinni fyrirhyggju.

Nánar um verkefnin

Verkefni Rauða krossins á Íslandi, sem er framkvæmt af Rauða krossinum í Malaví með stuðningi frá danska Rauða krossinum, nær til yfir 67 þúsund manns í héraðinu og miðar að því að byggja upp viðbúnað og viðnámsþrótt samfélaga. Það er gert með samþættum aðgerðum á sviði, lýðheilsu, hreinlætis, fæðuöryggis og aðgengi að hreinu vatni. Einnig er lögð áhersla á að efla leiðtogahæfni og lífsleikni ungs fólks á svæðinu og styðja við skólagöngu barna og ungmenna með námsgögnum og skólastyrkjum.

Verkefni SOS Barnaþorpanna veitir víðtækan stuðning til fjölskyldna í Ngabu í Chikwawa til að koma í veg fyrir að börn verði skilin frá foreldrum sínum vegna fátæktar. Verkefnið mun ná til 1.500 barna og ungmenna í 400 fjölskyldum sem njóta stuðnings í formi heilbrigðisþjónustu, menntunar, ráðgjafar, barnagæslu auk fleiri úrræða sem hjálpa þeim að yfirstíga erfiðleika og auka lífsgæði. Foreldrar fá aðstoð við að afla sér tekna, meðal annars í gegnum vaxtalaus smálán. Um 15 þúsund skólabörn njóta einnig góðs af verkefninu með eflingu samfélagsinnviða á svæðinu. Staðbundin grasrótarsamtök hafa hlotið þjálfun í barnavernd og hlutverk barnaverndanefnda og mæðrahópa hefur verið styrkt í baráttunni gegn ofbeldi og snemmbærum hjónaböndum og er samfélagið nú betur í stakk búið til að takast á við þessar áskoranir.

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar er framkvæmt í samstarfi Evangelical Association of Malawi og styður við 4.500 fjölskyldur, eða um 20 þúsund einstaklinga. Markmiðið er að efla viðnámsþrótt samfélagsins gegn veðuröfgum og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi. Meðal verkþátta er að byggja upp áveitukerfi til að gera þátttakendum kleift að stunda heilsárs ræktun, auka fjölbreytni í næringu og tekjum með búfjárrækt og fjölbreyttari ræktun ásamt því efla staðbundna stjórnunarhætti í umhverfismálum með uppfærðum regluverki. Sjálfbær hönnun verkefnisins tryggir að ávinningurinn mun halda áfram að vaxa innan samfélaganna eftir að því lýkur.

  • Íslensk félagasamtök styrkja viðnámsþrótt viðkvæmra samfélaga í Malaví - mynd úr myndasafni númer 1
  • Íslensk félagasamtök styrkja viðnámsþrótt viðkvæmra samfélaga í Malaví - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta