Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2025 Dómsmálaráðuneytið

Skýrari heimildir til öryggisráðstafana í samráðsgátt

Skýrari heimildir til öryggisráðstafana í samráðsgátt - myndEydís Eyjólfsdóttir

Dómsmálaráðherra hefur birt áform um lagabreytingar í Samráðsgátt stjórnvalda sem miða að því að skýra og efla ákvæði almennra hegningarlaga um öryggisráðstafanir gagnvart einstaklingum sem metnir eru sérstaklega hættulegir umhverfi sínu. Markmið breytinganna er skýra ákvæði laganna um öryggisráðstafanir og færa til nútímalegra horfs með það fyrir augum að bæta þjónustu og tryggja öryggi almennings.

„Það er löngu tímabært að endurskoða ákvæði um öryggisráðstafanir. Með þessum breytingum viljum við skapa skýrari lagaramma sem þjónar bæði almannahagsmunum og réttindum þeirra einstaklinga sem eiga í hlut. Með þessu eflum við öryggi allra í samfélaginu og tryggjum þjónustu við þá einstaklinga sem þurfa á öryggisvistunum að halda,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.

Frumvarpið snýr að öryggisráðstöfunum sem beitt er gagnvart einstaklingum sem annaðhvort teljast ósakhæfir eða þar sem refsing er ekki talin bera árangur. Þá eiga þær einnig við um sakhæfa einstaklinga sem hafa lokið afplánun en teljast áfram verulega hættulegir samfélaginu.

Skýrara lagaumhverfi - aukið samræmi í framkvæmd

Frumvarpið kemur í kjölfar margra ára undirbúningsvinnu í samstarfi við önnur ráðuneyti, heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög og hagsmunasamtök. Með því er brugðist við ábendingum eftirlitsaðila innanlands og erlendis um skort á skýrleika, samræmi og ábyrgð í framkvæmd öryggisráðstafana, auk þess sem tryggt er að lagaheimildir standist kröfur stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Ákvæði laganna um öryggisráðstafanir hafa að mestu staðið efnislega óbreytt frá setningu laganna, eða í rúm 80 ár. Skort hefur á samræmi í dómaframkvæmd í málum og heimild laganna um öryggisráðstafanir hefur sjaldan verið beitt. Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að skýrt sé hvenær megi grípa til hvaða öryggisráðstafana og á hverju slík ákvörðun skuli byggjast. Þá er lögð til heimild til að vista einstaklinga áfram í fangelsi eftir afplánun refsidóms með því skilyrði að einstaklingurinn hafi gerst sekur um alvarlegt afbrot og að taldar séu verulegar líkur á því, í ljósi sakaferils og andlegs ástands viðkomandi við lok afplánunar, að hann muni fremja ofbeldis- eða kynferðisbrot þegar afplánun lýkur og sé því hættulegur umhverfi sínu.

Samhliða þessu hyggst félags- og húsnæðismálaráðherra leggja fram á Alþingi næsta haust uppfært frumvarp um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Áformaskjal þess efnis er í Samráðsgátt stjórnvalda. Í því frumvarpi verður kveðið á um nýja stofnun sem fer með framkvæmd og fullnustu öryggisráðstafana, auk annarra verkefna. Sú löggjöf gerir ráð fyrir viðeigandi húsnæði fyrir þá þjónustu sem um ræðir. Samkvæmt frumvarpinu verðu lögð áhersla á batamiðaða nálgun við einstaklinga sem sæta öryggisráðstöfunum.

Áformin má nálgast í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til og með 21. ágúst næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta