Stýrihópur skipaður um skipulag netöryggismála hjá stjórnvöldum
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur skipað stýrihóp um endurskoðun skipulags netöryggismála hjá stjórnvöldum. Í stýrihópnum sitja fulltrúar þeirra ráðuneyta sem tengjast málaflokknum.
Stýrihópnum er ætlað að fara yfir framkvæmd lögbundinna verkefna stjórnvalda á sviði netöryggismála og fjarskiptaöryggis og leggja mat á fyrirkomulag og verkaskiptingu á því sviði. Hópnum er einnig ætlað að leggja mat á framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða (78/2019).
Þá á hópurinn að líta til fyrirkomulags netöryggismála á Norðurlöndunum og áhrifa innleiðingar NIS 2 tilskipunar, nýs regluverks Evrópusambandsins á sviði netöryggis.
Í stýrihópnum sitja:
- Birgir Rafn Þráinsson, skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu, formaður
- Atli Viðar Thorstensen, samhæfingarstjóri í forsætisráðuneytinu.
- Bjarki Þórisson, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu.
- Kristín Jónsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.
Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun netöryggismála. Stýrihópurinn er skipaður til eins árs og á að ljúka störfum fyrir lok júní 2026. Hópnum er þó ætlað að skila fyrstu niðurstöðum í lok þessa árs.