Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2025 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Embætti óperustjóra laust til umsóknar

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra auglýsir embætti óperustjóra laust til umsóknar. Leitað er að metnaðarfullum og skapandi einstaklingi sem hefur skýra sýn á starfsemi óperunnar. Óperustjóri stýrir óperunni, er í forsvari fyrir hana, markar listræna stefnu hennar og ákveður listrænt teymi fyrir hverja uppfærslu. Óperustjóri heyrir undir þjóðleikhússtjóra í skipuriti og skal eiga samráð við hann um gerð fjárhagsáætlana og mikilvægar ákvarðanir er varða rekstur óperunnar. Þjóðleikhúsráð hefur eftirlit með starfsemi óperunnar og skal rekstur hennar sérstaklega kynntur ráðinu.

Leitað er eftir einstaklingi sem hefur háskólamenntun í listum eða sambærilega menntun og staðgóða reynslu og þekkingu af vettvangi óperulista. Að auki þarf óperustjóri að búa yfir leiðtogahæfni, framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum, hæfileika til nýsköpunar og hafa reynslu af stjórnun, rekstri og stefnumótun.

Hlutverk nýstofnaðrar óperu er að sviðsetja óperuverk af háum listrænum gæðum, sinna sögulegri arfleifð óperulista, vera vettvangur framþróunar og nýsköpunar í óperulistum á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á listforminu. Óperan er hluti af Þjóðleikhúsinu og nýtur samstarfs við og stuðnings af starfsemi þess en mun hafa aðsetur í Hörpu.

Gert er ráð fyrir því að skipað verði í embættið eigi síðar en 15. nóvember 2025.

Ráðuneytið tekur mið af jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins og er fólk af öllum kynjum hvatt til að sækja um. 

Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá rafrænt í gegnum starfatorg (hámark 2 bls.) ásamt kynningarbréfi (hámark 1 bls.) á íslensku. Þar skal gera grein fyrir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við hæfniskröfurnar í auglýsingunni. Jafnframt er óskað eftir greinargerð að hámarki 2 A4 blaðsíður þar sem umsækjandi lýsir framtíðarsýn sinni fyrir starfsemi óperunnar.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skipar óperustjóra  til fimm ára í senn samkvæmt tillögu hæfnisnefndar, sbr. 8. gr. b laga um sviðslistir, nr. 165/2019.

Vakin er athygli umsækjenda á því að um ráðningarferlið gilda m.a. stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingalög nr. 140/2012. Um launakjör óperustjóra fer samkvæmt 39. gr.  laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frekari upplýsingar um starfið veitir Sigrún Brynja Einarsdóttir ráðuneytisstjóri í gegnum netfangið [email protected]

Umsóknarfrestur er til og með 5. september 2025.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta