Heimsótti Heilbrigðisstofnun Vesturlands
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE), skoðaði starfsstöðvar stofnunarinnar í Borgarfirði og á Snæfellsnesi og ræddi við starfsfólk og stjórnendur. Starfssvæði HVE er víðfeðmt, starfsstöðvar stofnunarinnar eru átta talsins og íbúar á þjónustusvæði hennar eru um 20.000. Að auki rekur stofnunin hjúkrunarheimilin Systraskjól í Stykkishólmi og Silfurtún í Búðardal.
Með ráðherra í för voru Arna Lára Jónsdóttir alþingismaður, Jón Magnús Kristjánsson aðstoðarmaður ráðherra, auk sérfræðinga úr ráðuneytinu á sviði öldrunarmála og húsnæðisframkvæmda. Heimsóknin hófst með fundi í höfuðstöðvum HVE á Akranesi þar sem ráðherra og fylgdarlið áttu fund með Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur, forstjóra stofnunarinnar, Sigurði E. Sigurðarsyni framkvæmdastjóra lækninga, Huldu Gestsdóttur framkvæmdastjóra hjúkrunar og Vilborgu Lárusdóttur mannauðsstjóra.
Alma D. Möller segir augljóst að HVE búi að öflugum stjórnendum og starfsfólki sem hafi metnað fyrir hönd stofnunarinnar og starfsemi hennar. „Ég fagna því hve markvisst er unnið að gæða- og umbótastarfi hjá stofnuninni og sömuleiðis áföngum sem náðst hafa í því að styrkja HVE sem kennslustofnun, síðast með viðurkenningu til að annast sérnám lækna í bæklunarlækningum í samstarfi við Landspítala. Eins nefni ég sérstaklega árangur við liðskiptaaðgerðir þar sem á síðasta ári tókst að gera um 400 aðgerðir á Akranesi sem var nærri 11% aukning frá fyrra ári. Það munar um minna og með breyttum verkferlum og skipulagi hefur einnig tekist að stytta aðgerðatíma og sömuleiðis legutíma sjúklinga eftir aðgerð.“ Alma segir ánægjulegt að sjá að starfsemin og reksturinn gangi vel. Þá sé afar jákvætt hvað þjónusta heilsugæslu á svæðinu er aðgengileg og biðtími eftir þjónustu víðast stuttur.
Jóhanna Fjóla: „Það var virkilega ánægjulegt að fá heilbrigðisráðherra, aðstoðarmann hans, starfsmenn ráðuneytisisn og þingmann kjördæmisins í heimsókn til okkar á HVE. Heimsóknir sem þessar eru upplýsandi fyrir alla aðila og því gott að hópurinn skyldi gefa sér tíma til að líta við á nokkrum ólíkum starfsstöðvum til að eiga samtal og skiptast á skoðunum við stjórnendur og starfsmenn ásamt því að skoða húsnæði og aðbúnað“
Frá Akranesi var haldið í Borgarnes og þaðan til Ólafsvíkur og Grundarfjarðar en á þessum stöðum rekur HVE heilsugæslustöðvar. Daginn eftir heimsótti ráðherra starfsstöðvar HVE í Stykkishólmi og sat jafnframt árlegan sumarfund ríkisstjórnarinnar sem þar var haldinn.