Ráðherra lætur kortleggja leiðir gegn djúpfölsun
Þann 11. júlí sl. barst menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra erindi nokkurra félagasamtaka, þar sem skorað var á ráðherra að beita sér fyrir lagasetningu um höfundarétt einstaklinga að eigin ásjónu og rödd. Vísað var til áforma dönsku ríkisstjórnarinnar um slíka lagasetningu, sem kynnt voru fyrr í sumar. Í áskorun samtakanna er áhyggjum lýst af því að misnotkun á persónu- og höfundareinkennum með svokölluðum djúpfölsunum geti haft verulegt tjón í för með sér fyrir alla sem verða fyrir slíku, einkum fyrir listamenn sem margir hafi lifibrauð af rödd sinni og framkomu. Fram kemur í áskoruninni að þótt að lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vernd persónuupplýsinga, verndi bæði rödd og ásjónu telji samtökin að málshraði og málsmeðferð Persónuverndar samræmist engan veginn þeim alvarlegu afleiðingum sem djúpfalsanir geti haft í för með sér. Fyrir slík tilfelli þurfi að vera farvegur sem tryggi skjóta afgreiðslu, auk þess sem nauðsynlegt sé að fyrirbyggja betur að slík mál komi upp, með viðeigandi viðurlögum.
Í svari f.h. menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra sem sent var samtökunum í vikunni tekur ráðherra heilshugar undir þær áhyggjur sem fram koma í erindinu. Að mati ráðherra er brýnt að kanna með hvaða hætti styrkja má rétt einstaklinga til eigin ímyndar með lagabreytingum, í ljósi þess að dreifing falsaðra mynda og myndbanda hefur aukist til muna vegna framþróunar gervigreindar. Í því skyni hyggst ráðherra láta kortleggja helstu leiðir sem færar eru við slíka lagasetningu, þar á meðal mögulegar breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, auk annarra mögulegra valkosta við einföldun á að gera einstaklingum kleift að leita réttar síns með skjótari og skilvirkari hætti ef á rétti þeirra er brotið með djúpfölsun. Sem fyrsta skref í þeirri vinnu hefur ráðherra óskað eftir því að höfundaréttarnefnd taki málið til athugunar og taki í kjölfarið afstöðu til framangreindra álitaefna. Einnig mun ráðuneytið kynna sér frumvarp danskra stjórnvalda um breytingar á höfundarréttarlögum þegar það verður lagt formlega fram en áætlað er að lögin verði innleidd fyrri hluta árs 2026.