Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Einstaklingssniðin heilbrigðisþjónusta – drög að stefnu kynnt á morgunverðarfundi

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að móta drög að stefnu um einstaklingssniðna heilbrigðisþjónustu (EHÞ) hefur skilað skýrslu sinni til ráðherra. Formaður starfshópsins var Kári Stefánsson fyrrverandi forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. EHÞ felur í sér að forvarnir, greining og meðferð er sniðin sérstaklega að hverjum einstaklingi, eftir því sem kostur er, m.a. á grunni erfðafræði, lífvísa og klínískra upplýsinga. Markmiðið er að velja besta meðferðarkostinn á hverjum tíma, forðast ónauðsynlegar meðferðir og draga úr aukaverkunum. Ráðherra boðar til morgunverðarfundar 27. ágúst þar sem skýrslan verður kynnt og rætt um málefnið frá ýmsum sjónarhornum.

Margvíslegur ávinningur

Vísindafólk og sérfræðingar á sviði heilbrigðismála víða um heim telja að EHÞ geti verið mikilvæg til að mæta á árangursríkan hátt margvíslegum áskorunum sem felast m.a. í öldrun þjóða, vaxandi sjúkdómsbyrði og þar með auknu álagi á heilbrigðiskerfi og sívaxandi kostnaði. Með því að nýta nýjustu þekkingu á erfðafræði, prótínmælingum og öðrum lífvísaþáttum má bæta horfur sjúklinga, gera skimun markvissari og hefja meðferð fyrr. Þetta getur aukið lífslíkur, bætt lífsgæði og sparað samfélaginu kostnað.

Skýrslan markar mikilvæg spor inn í framtíðina

„Það leikur enginn vafi á því að gríðarleg tækifæri felast í innleiðingu og þróun EHÞ og hún á eftir að hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar, jafnt á sviði forvarna, sjúkdómsgreininga og meðferðar. Hafa þarf hugfast að ýmis siðferðileg og lagaleg álitaefni tengjast EHÞ sem gerir miklar kröfur til innleiðingar hennar, líkt og fjallað er um í skýrslu starfshópsins. Skýrsla hópsins markar mikilvæg spor inn í framtíðina á þessu sviði en dregur líka fram að mikið starf er óunnið“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

Sterk staða Íslands

Á síðustu árum og áratugum hefur þróunin verið hröð víða um heim við uppbyggingu gagnagrunna með erfða- og heilsufarsupplýsingum um stóra hópa einstaklinga. Staða Íslands er sterk hvað þetta varðar þar sem viðamiklar erfða- og ættfræðiupplýsingar eru fyrir hendi í lífsýnasöfnum og gagnagrunnum. Höfundar meðfylgjandi skýrslu benda á að í þessu felist mikilvægur styrkleiki sem geri Íslandi kleift að vera í fararbroddi við þróun EHÞ, ekki aðeins hérlendis, heldur á heimsvísu.

Ráðist í tilraunaverkefni um þekkta arfgenga sjúkdóma

Starfshópurinn leggur til að ráðist verði í tilraunaverkefni með EHÞ vegna tiltekinna þekktra arfgengra sjúkdóma hér á landi. Lagt er til að skimað verði fyrir arfgengri hækkun kólesteróls með það að markmiði að veita tímanlega meðferð og fyrirbyggja sjúkdóma. Einnig að skimað verði fyrir arfengri járnofhleðslu sem er þekktur áhættuþáttur á grunni algengs erfðabreytileika sem leiðir til óafturkræfra sjúkdóma en er unnt að fyrirbyggja með snemmgreiningu og viðeigandi meðferð. Enn fremur er lagt til verkefni sem miðar að því að finna mögulega arfbera fyrir arfgerðir sem geta valdið lífshættulegri aukaverkun við algengum svæfingarlyfjum. Ef þetta liggur fyrir er hægt að velja önnur svæfingarlyf fyrir viðkomandi einstaklinga.

Morgunverðarfundur miðvikudaginn 27. ágúst

Eins og áður segir verður skýrsla starfshópsins kynnt á morgunverðarfundi sem heilbrigðisráðherra efnir til 27. ágúst næstkomandi, í samvinnu við fulltrúa starfshópsins. Nánari upplýsingar um fundinn, dagskrá og fyrirlesara verður kynnt innan skamms. Fundurinn verður haldinn í Hringsal Landspítala og stendur frá kl. 8.00-10.00. Hann hefst kl. 8.00 og verður einnig aðgengilegur í beinu streymi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta