Menningarnótt: málverkafalsanir, Lína langsokkur, æsilegar afhjúpanir og lummuát
Menningarnótt verður haldin hátíðleg um alla borg og ættu allir að geta fundið sér fjölda viðburða við hæfi. Hvort sem áhugasviðið er málverkafalsanir, glíma, hipphopp, heilsusamlegt líferni eða lummuát eftir hestferð um tún Þjóðminjasafnsins – þá er víst að engum þarf að leiðast á laugardaginn. Hér gefur á að líta brot af þeim viðburðum sem stofnanir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins standa fyrir en heildardagskrá menningarnætur er á vef Reykjavíkurborgar.
Harpa
Hörputorg verður mjög líflegt með hinni sívinsælu bátasmiðju fyrir fjölskyldur, árvissum lúðrasveitarbardaga, hipphoppi, BMX hjólalistum ofl. ofl. Allir salir Hörpu verða fullir af spennandi dagskrá þar sem úr nægu er að velja. Hinn eini sanni Mugison slær svo lokahljóminn í dagskrá Hörpu á Menningarnótt og leiðir gesti í samsöng.
Sjá nánar.
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands býður upp á tvenna ókeypis tónleika að degi menningarnætur í Eldborg. Gestir sækja sér miða á tónleikadegi. Sjá nánar.
Þjóðleikhúsið
Þjóðleikhúsið verður með mjög viðamikla dagskrá milli kl 12:30 og 18 í tilefni af 75 ára afmæli leikhússins. Menningarnótt verður sett á tröppum leikhússins kl. 12:30 en þá mun menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra einnig flytja ávarp í tilefni 75 ára afmæli leikhússins. Er gestum svo boðið til heilmikillar veislu og að gæða sér á köku og njóta skemmtiatriða. Bráðskemmtilegt 20 mínútna atriði úr stórsýningunni Lína Langsokkur verður sýnt á Stóra sviðinu á klukkutíma fresti. Auk Línu mun fjöldinn allur af dáðustu persónum vinsælustu barnaleikrita sögunnar koma fram. Þar á meðal eru Elsa og Ólafur úr Frosti, Lára og Ljónsi, Gunnjóna gamla úr Blómin á þakinu, Mikki refur og Lilli klifurmús úr Dýrunum í Hálsakógi og síðast en ekki síst Bastían bæjarfógeti, Soffía frænka og ræningjarnir úr Kardemommubænum!
Sjá nánar.
Listasafn Íslands og Safnahúsið við Hverfisgötu verða opin frá 10:00 - 22:00 og ókeypis aðgangur.
Safnahúsið Hverfisgötu
Á Menningarnótt verður sannkallað fjölskyldufjör í Safnahúsinu þar sem boðið er upp á ratleik um sýninguna Viðnám – samspil myndlistar-, sem börn á öllum aldri hafa gaman af! Einnig verður boðið uppá tónleika með Gadus Morhua kl. 16:00 og verður gamla kaffihúsinu í Safnahúsinu breytt í vellíðunarmiðstöð fyrir maraþonhlaupara og aðra gesti Menningarnætur milli kl. 16 og 19. Þar verður að finna einstaka blöndu af endurheimtarsvæði fyrir hlaupara, kynningu á nýjum hlaupahópi, kombucha-smökkun og heilsuhorn með hollum og góðum mat.
Listasafn Íslands Fríkirkjuvegi
Pop up outlet safnbúðarinnar opnar kl. 12:00. „Við tökum til á lager safnbúðar Listasafns Íslands“ Rýmingarsala svo lengi sem birgðir endast. Allt á 50—80% afslætti. Spennandi leiðsagnir verða í boði meðal annars Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir, leiðsögn sýningarstjóra kl. 17:00
Sýningarstjórinn Dagný Heiðdal og forvörðurinn Ólafur Ingi Jónsson taka á móti gestum og leiða um sýninguna Ráðgátan um Rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir.
Í safneign Listasafns Íslands leynast nokkur fölsuð verk sem hafa borist safninu með margvíslegum hætti. Undanfarin misseri hafa starfsmenn safnsins rannsakað þessi verk og hefur þá margt forvitnilegt komið í ljós. Markmið sýningarinnar er að auka vitneskju almennings um málverkafalsanir.
Þjóðminjasafnið
Allsherjar bæjarhátíð verður slegið upp fyrir framan Þjóðminjasafnið á Menningarnótt laugardaginn 23. ágúst milli kl. 13 og 16:30. Þá verður kaupstaðarlífið á 19. öld í brennidepli. Á dagskrá verður kynning á íslenska hestinum og mikilvægi hans, glímukennsla, þjóðdansar og leiðsagnir um safnið. Þá gefst gestum tækifæri til að læra að sitja hest í söðli og klyfja hann varningi, gæða sér á lummum og fræðast um lífið á 19. öld. Í lok dagskrár mun Einar Falur ljósmyndari bjóða upp á leiðsögn um sýningu sína Samtal við Sigfús. Jafnframt verður aðgangur að safninu ókeypis og kaffihúsið opið. Sjá nánar.
Árnastofnun
Ókeypis verður á sýninguna Heimur í orðum frá kl.10 - 17 í tilefni dagsins ásamt því að Stefán Pálsson sagnfræðingur verður með æsilegar afhjúpanir um áfengisdrykkju á miðöldum á kaffihúsinu Ými, sendibréfasmiðja verður í boði fyrir alla fjölskylduna auk leiðsagnar og fyrirlesturs um pílagrímaferðir Íslendinga. Sjá nánar.
Listasafn Einars Jónssonar
Safnið býður upp á listamannaspjall og leiðsagnir í tilefni dagsins og er opið til kl 22:00. Sjá nánar.
Háskóli Íslands
Opið verður í Loftskeytastöðinni á Menningarnótt og boðið upp á leiðsögn um sýninguna Ljáðu mér vængi – Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur kl. 13:30. Sjá nánar.
Gljúfrasteinn
Gljúfrasteinn er ekki með sérstaka dagskrá í tilefni menningarnætur en tekur vel á móti gestum að vanda auk þess sem athygli er vakin á að næstsíðustu stofutónleikar sumarsins eru á sunnudaginn 24. ágúst. Þá koma þau GDRN og Magnús Jóhann og blaða í nótum Magnúsar J. Árnasonar, sjá hér: Gljúfrasteinn hús skáldsins
Gljúfrasteinn mun taka þátt í bæjarhátíðinni Í túninu heima síðustu helgina í ágúst. Þá verður frítt inn á safnið á laugardaginn 30. ágúst og síðustu tónleikar sumarsins verða sunnudaginn 31. ágúst kl. 16 þegar Valdimar stígur á stokk.