Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2025 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur skilar tillögum til verndar brotaþolum

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, Kristín Alda Jónsdóttir, Drífa Kristín Sigurðardóttir, Erna Sif Jónsdóttir, Anna Barbara Andradóttir og Linda Dröfn Gunnarsdóttir - mynd

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra tók í gær við tillögum starfshóps að breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Tillögurnar og aðgerðir tengdar þeim verða kynntar á næstu vikum.

„Það er skýrt í mínum huga að ofsóknir eiga að hafa afleiðingar og það verður aldrei talið til mannréttinda að fá að ofsækja fólk. Þolendur eltihrella og þolendur ofbeldis í nánum samböndum eiga að finna fyrir öryggi, sér í lagi á eigin heimili. Með þeim aðgerðum sem kynntar verða og frumvarpi sem ég mun leggja fram á Alþingi stöndum við vörð um þolendur og gerum það sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi þeirra,“ segir dómsmálaráðherra.

Litið til löggjafar og framkvæmdar á Norðurlöndum

Starfshópurinn var skipaður 25. mars síðastliðinn og var falið að yfirfara gildandi lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sem og framkvæmd þeirra ásamt því að leggja til breytingar í samræmi við þá yfirferð. Þá var sérstaklega til skoðunar hvort, og þá með hvaða hætti, hægt er að nýta ökklabönd við rafræna vöktun til að auka öryggi brotaþola.

Við vinnu hópsins var sérstaklega litið til löggjafar og framkvæmdar á Norðurlöndunum og þeirrar þróunar sem þar hefur átt sér stað á sviði rafræns eftirlits með nálgunarbanni og brottvísun af heimili.

Starfshópinn skipuðu:

  • Anna Barbara Andradóttir frá Ríkissaksóknara
  • Kristín Alda Jónsdóttir frá Ríkislögreglustjóra
  • Hildur Sunna Pálmadóttir frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
  • Linda Dröfn Gunnarsdóttir frá Kvennaathvarfinu
  • Jakob Birgisson frá dómsmálaráðuneytinu
  • Erna Sif Jónsdóttir frá dómsmálaráðuneytinu
  • Drífa Kristín Sigurðardóttir frá dómsmálaráðuneytinu, formaður hópsins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta