Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2025 Forsætisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hlustað á rödd barna á ríkisstjórnarfundi

Ríkisstjórnin ásamt barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. - mynd

Ríkisstjórn Íslands tók á móti barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á fundi ríkisstjórnar í morgun. Þar kynntu fulltrúar ráðsins tillögur sínar og áherslur er varða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig þau sjá fyrir sér að staðið verði að framgangi þeirra hér á landi.

Tillögurnar eru tíu og fjalla þær um skólamál, heilbrigðismál, lýðræði, fjölbreytileika og heildstæða ungmennastefnu. Að lokinni kynningu ungmennanna átti Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, ásamt öðrum ráðherrum gott samtal við börnin um það sem þeim liggur á hjarta og sýn þeirra á verkefnin fram undan sem lúta að heimsmarkmiðunum.

„Í vetur gaf mennta- og barnamálaráðuneytið út leiðarvísi um hagsmunamat út frá réttindum barna í allri stefnumótun stjórnvalda. Markmiðið er að stjórnvöld séu meðvituð um hvaða áhrif ákvarðanir þeirra hafa á börn og réttindi þeirra,“ segir Guðmundur Ingi. „Ekki bara að hlusta heldur einnig innleiða mat á hagsmunum barna í okkar verklag.“

Tilgangur funda ráðsins með ríkisstjórninni er að skapa vettvang þar sem ungmenni geta komið sínum sjónarmiðum á framfæri við stefnumótandi aðila um heimsmarkmiðin, sjálfbæra þróun og önnur málefni sem þau varða. Ráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðast hvar af landinu, á aldursbilinu 13–18 ára.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða. Árið 2018 var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmiðin ásamt því að koma áherslumálum sínum á framfæri.

Hægt er að fylgjast með störfum barna- og ungmennaráðsins á Facebook og Instagram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta