Ráðherra ávarpaði ársfund Vestnorræna ráðsins
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, ávarpaði 41. ársfund Vestnorræna ráðsins fyrir hönd samstarfsráðherra Vestnorrænu landanna. Fundurinn fór fram í Ilulissat á Grænlandi 18 - 20 ágúst.
Ráðherra gerði framtíðarhorfur ungs fólks á Vestnorræna svæðinu að umtalsefni í ávarpi sínu og kom meðal annars fram að algengt væri að ungt fólk á vestnorræna svæðinu flytti búferlum til að sækja sér menntun og reynslu. Benti ráðherra á að mikilvægi þess að sköpuð skilyrði til að flytja aftur á heimaslóðir. Vitnaði hann til skýrslu sem unnin var í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 af samráðshópi nær 30 norrænna ungmenna með 40 hagnýtum tillögum um hvernig gera megi dreifbýlissvæði á Norðurlöndunum aðlaðandi fyrir ungt fólk. Nota mætti tillögurnar sem leiðarvísi um að skapa ungu fólki aðlaðandi, lifandi og sjálfbær dreifbýlissamfélög þar sem ungt fólk er í forgrunni. Tilögurnar leggja áherslu á samgöngur, húsnæði, menntun og atvinnu, heilsu og tómstundir, samfélag og félagslíf og inngildingu.
Þá greindi ráðherra frá dæmum þess efnis s.s. Norður-Atlantshafsbekknum þar sem lögð er stund á menntaskólanám í Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi, og Vestnordjobb sem miðar að því að efla þátttöku ungmenna á aldrinum 18-30 frá vestnorrænu löndunum í Nordjobb og auka möguleika þeirra á atvinnu innan svæðisins.
Ráðherra fundaði einnig með forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins þar sem rædd voru málefni ofarlega á baugi og áherslur í vestnorrænu og norrænu samstarfi.
,,Mikilvægt er að við eigum í góðu og nánu samstarfi við okkar næstu nágranna, þar sem mörg hugðarefni og áskoranir eru sameiginleg. Það veitir mikilvæga innsýn að heimsækja löndin og kynnast þar lífi og aðstæðum. Ég hef átt góða fundi og samtöl þar sem samhljómur er um mikilvægi vestnorrænnar samvinnu og að hún haldi áfram að vaxa og dafna,“ segir Logi sem var í sinni fyrstu heimsókn til Grænlands.
Vestnorræna ráðið er þingmannavettvangur þjóðþinga Færeyja, Grænlands og Íslands. Í ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju landi. Ráðið var stofnað árið 1985 og hefur skrifstofa ráðsins aðsetur í Reykjavík. Mælt er fyrir um margvíslegt samstarf milli Vestnorræna ráðsins og stjórnvalda í vestnorrænu löndunum í samstarfsyfirlýsingu þeirra frá árinu 2002.